Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Páll Axel og Erla Reynis valin best hjá UMFG
Mánudagur 18. apríl 2005 kl. 15:23

Páll Axel og Erla Reynis valin best hjá UMFG

Lokahóf körfuknattleiksdeildar UMFG var haldið með pompi og prakt í Festi á laugardagskvöldið. Páll Axel Vilbergsson og Erla Reynisdóttir voru valin bestu leikmenn. Efnilegustu leikmenn voru Berglind Anna Magnúsdóttir og Þorleifur Ólafsson og mestu framfarir hlutu Jovana Stefánsdóttir og Björn Steinar Brynjólfsson.

Þorsteinn Gunnarsson íþróttafréttamaður á Stöð 2 og Sýn hélt utan um hátíðarhöldin með röggsamri veislustjórn og fórst honum verkefnið vel úr hendi. Dagskráin breyttist lítillega þar sem Jóhannes Kristjánsson skemmtikraftur veiktist á laugardaginn og þurfti að boða forföll. Það var enginn annar en Laddi sem fyllti í skarðið fyrir hann og stóð hann sig vel eins og við mátti búast. Hann fór á svið strax á eftir Hildi Völu idolstjörnu en stúlkan sú stóð sig með miklum sóma og mætti svo eins og sköpuð í Stuðmenn seinna um kvöldið.

Leikmenn beggja liða voru með skemmtiatriði sem féllu mjög vel í kramið og mátti sjá stjórnarmenn fáklædda sprangandi um gólf í Festi í leikjum sem leikmennirnir buðu upp á!!

Það var svo hljómsveit allra landsmanna, Stuðmenn, sem tóku svo við stuðkyndlinum og héldu honum hátt á lofti fram eftir nóttu og nutu eins og áður hefur komið fram fulltingis Hildar Völu idolstjörnu.

Það var margt góðra gesta á hófinu og meðal annars kom Árni Johnsen og auðvitað með gítarinn með sér og tók hann bæði lagið á sviðinu og hélt svo uppi stuði frami í fjöldasöng.

 www.umfg.is

Vf-myndir/Þorsteinn G. Kristjánsson - Efri: Einar Einarsson, Björn Steinar, Páll Axel, Þorleifur og Ágúst Bjarnason. Neðri: Erla Reynisdóttir tekur við verðlaunum frá Henningi Henningssyni ásamt Berglindi Magnúsdóttur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024