Páll Axel með 54 stig!
Jólafríið hefur heldur betur farið vel í karlalið Grindvíkinga í úrvalsdeildinni í körfuknattleik. Þeir fóru hamförum í upphafsleik ársins um helgina gegn Tindastóli og sigruðu með 38 stiga mun, 124-86. Páll Axel Vilbergsson skoraði 54 stig í leiknum sem fram fór í Grindavík.
Páll Axel var í banastuði og skoraði úr 8 af 11 2ja stiga skotum. Hann var líka sjóðheitur í 3ja stiga skotunum og hitti úr 10 af 18. Á vítalínunni var það sama upp á teningnum, þar hitti hann úr 8 af 12 vítaskotum.
Grindvíkingar tóku leikinn föstum tökum strax í upphafi og höfðu góða forystu í hálffleik, 68-41.
Spennan í toppbaráttu deildarinnar er gríðarleg en Stjarnan, Njarðvík, Keflavík og KR eru öll efst og jöfn með 18 stig. Þar á eftir kemur Grindavík með 16 stig.