Páll Axel leikmaður ársins
Grindvíkingurinn Páll Axel Vilbergsson var valin leikmaður ársins á lokahófi KKÍ í gær. Þetta er annað árið í röð sem Grindvíkingur hlýtur þessa nafnbót, en Helgi Jónas Guðfinnsson var hlutskarpastur í fyrra.
Páll Axel er vel að þessum heiðri kominn þar sem hann var stigahæstur allra Íslendinga í vetur og var lykilmaður í liði Grindavíkur.
Þá var María Ben Erlingsdóttir valin efnilegasti leikmaður í kvennaflokki, en hún stóð sig frábærlega á sinni fyrstu leiktíð í vetur.
Í liði ársins hjá konum voru þær Sólveig Gunnlaugsdóttir úr Grindavík og Keflvíkingarnir Erla Þorsteinsdóttir og Birna Valgarðsdóttir.
Hjá körlunum voru nafnarnir Páll Axel og Páll Kristinsson úr Njarðvík einu Suðurnesjamennirnir í liði ársins, en athygli vekur að Íslands- og bikarmeistarar karla frá Keflavík hlutu engar viðurkenningar að þessu sinni.
Leikmenn og þjálfarar liðanna í efstu deildum standa fyrir kjörinu.