Páll Axel Íþróttamaður Grindavíkur 2007
Körfuknattleiksmaðurinn Páll Axel Vilbergsson var í kvöld útnefndur Íþróttamaður Grindavíkur fyrir árið 2007. Knattspyrnumaðurinn Scott Ramsay varð annar í kjörinu og Þorleifur Ólafsson liðsfélagi Páls í Grindavíkurliðinu varð þriðji í kjörinu.
Páll Axel er fyrirliði Grindavíkur sem leikur í Iceland Express deild karla og vermir um þessar mundir 2. sætið í deildarkeppni úrvalsdeildar. Páll er leiðtogi á velli og hefur m.a. orðið Íslands- og bikarmeistari með Grindvíkingum og leikur stórt hlutverk hjá íslenska A-landsliðinu sem í haust vann magnaðan heimasigur með flautukörfu gegn Georgíumönnum.
Páll Axel hefur leikið 18 deildarleiki með Grindavík á þessari leiktíð og gerir að jafnaði 22,1 stig að meðaltali í leik en Páll Axel er á sínu fjórtánda ári í úrvalsdeild karla og á sínu þrettánda ári með Grindavík en hann lék eina leiktíð með Skallagrím í Borgarnesi.
VF-Mynd/ Þorsteinn G. Kristjánsson