Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Pálína íþróttamaður Keflavíkur 2011
Fimmtudagur 29. desember 2011 kl. 13:47

Pálína íþróttamaður Keflavíkur 2011

Íþróttamaður Keflavíkur var krýndur í gær í sal félagsins við Sunnubraut. Að þessu sinni hlotnaðist Pálínu Maríu Gunnlaugsdóttur körfuknattleikskonu heiðurinn en hún hefur verið lykilmaður í sigursælu liði núverandi Íslandsmeistara. Pálína sagði í samtali við Víkurfréttir að hún hefði alls ekki búist við þessu en hún væri ótrúlega ánægð með tilnefninguna. Hún sagðist aldrei hafa unnið neitt slíkt áður og kvaðst Pálína vera ákaflega stolt yfir þessu. Körfuknattleikslið Keflavíkur er þessa stundina efst í úrvalsdeild kvenna og eru einnig handhafar Íslands- og bikarmeistaratitlanna. Pálína var nokkuð sammála því að þarna væri líka verið að viðurkenna þann árangur að vissu leyti með því að heiðra hana, en hún var lykilmaður í þessu fyrnasterka liði eins og áður segir. „Ég myndi segja að ég hafi toppað eftir áramót á síðasta tímabili og er í alveg hreint ágætis formi,“ sagði Pálína og bætti því við að liðinu gengi vel og að hún væri bara mjög glöð með þetta allt saman.

Meðal þeirra afreka sem Pálína vann á árinu:

Pálína var valin í 5 manna úrvalslið Icelandexpressdeildar kvenna fyrir síðasta tímabil. Hún var valin besti leikmaður Íslands og bikarmeistara kvenna. Var í úrvalsliði Keflavíkur, ein af 5 bestu leikmönnum bæði karla og kvennaliðs Keflavíkur. Valin í landsliðshóp sem kemur saman nú á milli jóla og nýárs. Pálína er fyrirmynd annarra íþróttamanna, einstaklega ósérhlífin, dugleg og drífandi sem smitast yfir í aðra leikmenn. Hefur verið í fremstu röð körfuknattleikskvenna síðastliðin 5 ár, þrátt fyrir að vera búinn að eignast dóttur fyrir rúmlega 2 árum síðan og var komin á fullt aftur við æfingar 5 vikum eftir barnsburð. Pálína hefur verið leikmaður í öllum yngri landsliðum Íslands og hefur verið fastamaður í A- landsliði Íslands síðan 2006.

Fleiri íþróttamenn fengu viðurkenningu fyrir afrek sín en eftirfarandi aðilar eru Íþróttamenn deilda Keflavíkur 2011

Knattspyrnumaður: Ómar Jóhannsson

Körfuknattleiksmaður: Pálína María Gunnlaugsdóttir

Fimleikamaður: Heiðrún Rós Þórðardóttir

Sundmaður: Davíð Hildiberg Aðalsteinsson

Badmintonmaður: Ísabella Kjartansdóttir

Skotmaður: Jens Magnússon

Taekwondomaður: Jón Steinar Brynjarsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frá vinstri: Fulltrúi Davíðs Hildibergs Aðalsteinssonar, Jens Magnússon, Ísabella Kjartansdóttir, Jón Steinar Brynjarsson, Pálína María Gunnlaugsdóttir, Ómar Jóhannson, Heiðrún Rós Þórðardóttir og Einar Haraldsson formaður Keflavíkur.

Badmintonmaður Keflavíkur er hin unga Ísabella Kjartansdóttir. Að neðan er Ómar Jóhannsson, markvörður knattspyrnuliðs Keflavíkur að taka við viðurkenningu úr hendi Kára Gunnalaugssonar, varaformanns aðalstjórnar Keflavíkur.