Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Pálína: Hamingjusöm hjá Keflavík
Þriðjudagur 11. desember 2007 kl. 14:43

Pálína: Hamingjusöm hjá Keflavík

Bakvörðurinn Pálína Gunnlaugsdóttir var einn þriggja leikmanna Keflavíkurkvenna í dag sem útnefndur var í úrvalslið fyrstu níu umferða deildarinnar. Með henni í úrvalsliðinu voru þær Margrét Kara Sturludóttir og TaKesha Watson. Pálína skipti í sumar frá margföldum meisturum Hauka og yfir til Keflavíkur. Í meiðslum og annarri fjarveru lykilmanna í Keflavíkurliðinu hefur Pálína verði einn þeirra leikmanna sem stigið hefur rækilega upp og drifið Keflavíkurliðið áfram í baráttunni.

 

,,Við erum greinilega að gera eitthvað rétt,” sagði Pálína kát í bragði í samtali við Víkurfréttir en hún hefur mest gert 22 stig í einum deildarleik til þessa á leiktíðinni en það var gegn Val. Pálína gerir 13 stig að meðaltali í leik fyrir Keflavíkurliðið en hún er einn sterkasti varnarmaður deildarinnar.

 

,,Það eru margir í liðinu sem hafa stigið upp hjá okkur og nú er næsti leikur gegn KR. Ég hef góða tilfinningu fyrir leiknum þar sem KR er með mjög spennandi lið í ár og skemmtilegt að sjá þær spila,” sagði Pálína en hvernig hefur henni liðið hjá Keflavík það sem af er móti?

 

,,Það er bara búið að vera gaman hjá mér og ég held að þetta hefði ekki getað orðið betra. Stelpurnar eru æðislegar og Jonni þjálfari líka svo ég er bara mjög hamingjusöm hjá Keflavík og spennt fyrir framhaldinu,” sagði Pálína.

 

Pálína hefur leikið alla níu fyrstu mótsleikina með 13 stig að meðaltali í leik, 5,7 fráköst, 2,6 stoðsendingar og 2,4 stolna bolta. Þá hefur Pálína gert 18 þriggja stiga körfur í níu leikjum sem er mest allra leikmannanna í úrvalsliðinu.

 

VF-Mynd/ [email protected] - Pálína og Matthías Imsland framkvæmdastjóri Iceland Express við verðlaunaafhendinguna fyrr í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024