Pálína gerði sigurkörfu Hauka
Deildarmeistarar Hauka eru komnar með aðra höndina á Íslandsmeistaratitilinn í kvennakörfunni eftir 77-79 sigur á Keflavík í jöfnum og spennandi leik. Staðan er 2-0 Haukum í vil en vinna þarf þrjá leiki til þess að verða Íslandsmeistari. Það var Pálína Gunnlaugsdóttir sem reyndist hetja Hauka er hún setti niður mikilvæga þriggja stiga körfu á lokasekúndum leiksins.
Keflavíkurkonur voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og höfðu yfir að loknum 1. leikhluta 23-21 en það var María Ben Erlingsdóttir sem gerði lokastig leikhlutans fyrir Keflavík og það virtist kveikja smá neista hjá meisturunum.
Í 2. leikhluta voru Keflavíkurkonur mun ákveðnari og leystu vel úr pressu Hauka þegar hún dundi yfir. Tæpar fimm mínútur voru til hálfleiks þegar Svava Stefánsdóttir setti niður þriggja stiga körfu og kom Keflavík 14 stigum yfir Hauka 39-25. Þá var 2-3 svæðisvörn Keflavíkur að gera Haukum lífið leitt og varð þeim lítt ágegnt við körfu heimaliðsins. Lakiste Barkus var drjúg fyrir Keflavík í fyrri hálfleik og var komin með 22 stig þegar flautað var til hálfleiks. Meagan Mahoney var komin með 14 stig hjá Haukum og Pálína Gunnlaugsdóttir 10.
Haukakonur komu grimmar til síðari háfleiks og var það Sigrún Ásmundsdóttir sem kom Haukum yfir í 54 – 55 en eftir það létu Haukar forystuna aldrei af hendi þó Keflavík væri ávallt skammt undan. Meagan Mahoney gerði lokastig 3. leikhluta fyrir Hauka og breytti stöðunni í 56-61.
Í fjórða leikhluta komust Haukar í 60-70 og allt stefndi í öruggan sigur en Keflavík tók þá góða rispu og minnkaði muninn í 71-76 og fyrr en varði var staðan 75-76 eftir að Barkus hafði stolið boltanum af Helenu Sverrisdóttur og skorað auðvelda körfu. Um 30 sekúndur voru til leiksloka þegar Pálína Gunnlaugsdóttir fékk boltann og setti niður sigurkörfuna fyrir utan þriggja stiga línuna, 75-79, Keflavík gerði þó lokakörfu leiksins og urðu lokatölur 77-79, Haukum í vil.
Mikill munur var á Keflavíkurliðinu frá fyrstu viðureign liðanna en hvað sem því líður eru Íslandsmeistararnir 2-0 undir og verða að gera það sem ómögulegt virðist í augnablikinu, sigra að Ásvöllum.
Meagan Mahoney var stigahæst í liði Hauka með 32 stig og 14 fráköst en Helena Sverrisdóttir hélt uppteknum hætti og daðraði við þrennuna með 22 stig, 8 stoðsendingar og 9 fráköst. Hjá Keflavík átti Lakiste Barkus stórleik en hún gerði 37 stig í leiknum og tók 8 fráköst.
Liðin mætast svo í þriðja leiknum að Ásvöllum föstudaginn 7. apríl næstkomandi en þá geta Haukakonur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.
VF-myndir/ JBÓ og Þorgils