Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Pálína: Allir að leggja sitt af mörkum
Mánudagur 10. mars 2008 kl. 14:22

Pálína: Allir að leggja sitt af mörkum

Bakvörðurinn Pálína Gunnlaugsdóttir var valin í úrvalslið umferða 18-24 í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í dag en Pálína er vel að útnefningunni komin enda ein helsta driffjöðurin í sterkum varnarleik Keflavíkur. Keflavík vann alla sjö deildarleiki sína í umferðunum þar sem Pálína var jafnan sett á sterkustu sóknarmenn andstæðinganna enda er hún á meðal fremstu varnarmanna deildarinnar.
Pálína mun leika með Keflavík gegn Haukum í úrslitakeppni deildarinnar sem hefst á laugardag og kvaðst hún spennt fyrir leikjunum þegar Víkurfréttir náðu af henni tali.
,,Ég hlakka rosalega mikið til en í byrjun tímabilsins þegar við mættum Haukum í Poweradebikarnum þá var svolítið leiðinlegt að vinna Hauka en það er það ekki lengur og ég held að ég sé orðin mun meiri Keflvíkingur síðan í Poweradebikarnum,” sagði Pálína sem gekk til liðs við Keflavík fyrir yfirstandandi leiktíð frá Haukum.
Síðast þegar Haukar og Keflavík mættust höfðu Keflvíkingar yfirburðasigur í leiknum og þar komst Pálína ekki á blað í stigaskorinu. ,,Ég verð að bæta fyrir það á laugardaginn en ég var ekkert að halda aftur af mér síðast gegn Haukum, það voru bara allir mjög góðir í Keflavíkurliðinu í þessum leik og ég held bara að það hafi ekki verið pláss fyrir mig á stigatöflunni,” sagði Pálína kát í bragði en í síðustu sjö leikjum hefur hún gert 11,1 stig að meðaltali í leik og stolið alls 15 boltum í þessum leikjum.
Keflavíkurvörnin hefur verið sterk að undanförnu og lét Pálína þau orð falla að það væri vörnin sem ynni titla en hvernig leggjast rimmurnar við Hauka í hana? ,,Það má vera að Victoria Crawford hafi fært þær á hærra plan að einhverju leyti en við munum finna ráð til þess að hægja á henni,” sagði Pálína og vildi nú ekki meina að það hefði verið hún ein sem hefði endurvakið fornar sigurhefðir Keflavíkur.
,,Þetta er ekki frá mér einni komið, þetta er bara liðsheildin því allir eru að leggja sitt að mörkum,” sagði Pálína en Keflvíkingar léku alls 24 deildarleiki og höfðu sigur í 20 leikjum og luku því deildarkeppninni á toppnum með 40 stig en KR hafnaði í 2. sæti, Grindavík í 3. sæti og Haukar í 4. sæti.
Töluvert hefur lifnað yfir Pálínu í marsmánuði frá öðrum mánuðum Íslandsmótsins því hún er í þessum mánuði með sitt hæsta framlag í leikjunum og flest stig að meðaltali. Pálína lék tvo leiki með Keflavík í þessum mánuði í deildarkeppninn og gerði í þeim að jafnaði 16,0 stig með 19,5 í framlagseinkunn.
VF-Mynd/ [email protected] Pálína Gunnlaugsdóttir var í dag valin í annað sinn í úrvalslið Iceland Express deildar kvenna en hún var einnig í úrvalsliðinu í umferðum 1-9.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024