Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Pakkfullt hús á boxbardaga við Dani
Föstudagur 6. febrúar 2009 kl. 09:50

Pakkfullt hús á boxbardaga við Dani



Það var hreint ótrúleg stemning í gömlu sundhöllinni í Keflavík þegar íslensku hnefaleikafélögin tóku á móti sjö dönskum klúbbum í þrettán viðureignum þeirra á milli síðastliðið laugardagskvöld. Húsið var pakkfullt og áhorfendur sýndu hreint frábæran stuðning við sína menn.

Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) tefldi fram átta keppendum og höfðu þeir betur í fimm skipti. Hafsteinn Smári Óskarsson vann nokkuð öruggan sigur á Gunnari Gray frá Hnefaleikafélaginu ÆSIR (HFÆ), Ásdís Rósa Gunnarsdóttir tapaði fyrir þriðju bestu hnefaleikakonu Dana, Maríu Jacobsen en Gunnar Davíð Gunnarsson bróðir Ásdísar reif upp stemninguna með frábærri frumraun sinni í hringnum gegn Axel Loga Þorsteinssyni (HFÆ). Hafði hann yfirburði allan tímann og uppskar sigur að lokum. Hinn snarpi og snaggaralegi Ástþór Sindri Baldursson mætti jafnoka sínum í Iayd Snounou frá SIK-Fight en fann ekki Akkilesarhæl þess danska fyrr en það var orðið of seint og varð að sætta sig við ósigur í þetta skiptið. Þá barðist Tom Wolbers við Danann Flemming Rasmussen, en átti ekki erindi sem erfiði og handklæðinu var hent inn í lok annarar lotu.

Þeir gleyma því seint sem sáu Njarðvíkinginn Pétur „Smiley” Ásgeirsson mæta Dananum Andreas Lynggard. Hann sýndi það og sannaði að suðurnesjamenn eru ekki búnir til úr pappakössum! Lynggard þessi var eldri, reyndari, þyngri og hærri en Pétur, sem hræddist þó ekki þennan danska úlf. Fyrst byrjaði hann á því að sýna einhverja þá ótrúlegustu varnartakta sem sést hafa í íslenskum hnefaleikahring, lét andstæðing sinn slá 6-7 vindhögg í röð hvað eftir annað og sló hann svo í gólfið með hægri hendi. Daninn stóð upp með skottið milli lappanna og lauk bardaganum með sigri Péturs, sem var síðar valinn boxari kvöldsins.

Björn Snævar Björnsson mætti Lau Johansen, sem lét frá sér allar hugmyndir um sigur þegar hann fann hversu mikill kraftur var í Birninum. Johansen, sem er mjög reyndur, var eins og vel sleipur áll og virtist hafa meiri áhuga á því að glíma við Björn en boxa við hann. Sá síðarnefndi lét þó engan bilbug á sér finna og gaf þeim danska ekki stundarfrið enda vann hann verðskuldaðan sigur að lokum.

Þeir Adam Freyr Daðason frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar og Gunnar Kolbeinn Kristinsson (HFÆ) stóðu sig vel, en voru ekki alveg nógu sannfærandi til þess að vinna sigur. Matthías Arnarsson (HFÆ) tókst það hins vegar og sigraði Danann Karar Al-Yaseri í þrusuviðureign.

Í síðasta bardaga kvöldsins mætti Árni „úr járni” Ísaksson í sinni fyrstu hnefaleikaviðureign þriðja besta boxara dana í 75 kg flokki, Filip Jörgensen frá HSK. Árni eyddi tímanum ekki í vitleysu heldur tætti Jörgensen í sundur högg fyrir högg frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu. Áætlunin hjá Jörgensen var sú að láta Árna þreyta sig á því að slá í hanskana hjá sér en reyndist það hið mesta feigðarflan, því Árni verður aldrei þreyttur! Þegar líða fór á bardagann sást það klárlega á fasi Jörgensen að hann hafði nú fyllilega gert sér grein fyrir því að hann væri ekki að í hringnum með einhverjum manni, heldur náttúruafli! Daninn skoraði ágætlega þegar hann þorði að slá, en þau fáu stig sem hann skoraði drukknuðu í höggaflóðinu hans Árna, sem tók sigrinum fálega og lofaði að gera enn betur næst!

Vonir eru uppi um að Jörgensen fái annað færi á Árna og komi hingað aftur og keppi ásamt löndum sínum í Reykjanesbæ þann 7. mars næstkomandi.

Hnefaleikafélag Reykjaness vill þakka bæði Kaskó og Café Duus fyrir sýndan stuðning.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024