„Pabbi lét mig horfa á Bruce Lee myndir þegar ég var lítill“
Ágúst Kristinn Eðvarðsson hefur átt frábært ár í taekwondo
Það er brosmildur og saklaus ungur maður sem tekur í höndina á mér í húsnæði taekwondo deildar Keflavíkur þegar ég geng þar inn úr rigningunni á þriðjudag. Orðspor hans barst mér til eyrna fyrr á árinu þar sem hann var að gera góða hluti hér innanlands og er þar kannski ekki nógu djúpt tekið í árinni. Strákurinn hefur verið nær ósigrandi hér heima og síðan þá hefur hann klifrað metorðastigann á erlendum vettvangi líka. Toppnum var náð í Frakklandi þar sem hann náði 3. sæti á Evrópumótinu í flokki 12-14 ára en betri árangri hefur enginn Íslendingur náð á stórmóti og þykir mér ljóst að liggur gluggar framtíðarinnar standi honum galopnir. Keflvíkingurinn Ágúst Kristinn Eðvarsson er viðmælandi íþróttadeildar Víkurfrétta í þessari viku.
Nær ósigrandi hér heima fyrir
Hinn 14 ára Ágúst byrjaði að æfa taekwondo aðeins 6 ára gamall eftir að hafa æft fótbolta og prófað sund sem að hann fann sig ekki í. Hann segir áhrif að heiman hafa átt stóran þátt í því að hann mætti á sína fyrstu æfingu. „Pabbi lét mig horfa með sér á Bruce Lee karatemyndir þegar ég var lítill. Hann fór með mér á mína fyrstu æfingu árið 2008. Honum langaði alltaf að æfa sjálfur en það var víst ekki neitt svona í boði þegar hann var lítill. Hann æfði að vísu júdó í einhvern tíma en það er ekki byggt á höggum og spörkum eins og þessar greinar sem hann hreifst mest af. Ég var búinn að æfa í ca. eitt ár þegar ég vissi að þetta væri eitthvað sem ég vildi elta og reyna að ná langt í. -segir Ágúst með ákveðinni röddu og ég er strax sannfærður um að þessi ungi maður sé með hugarfar þess sem ætlar sér í fremstu röð. Árangurinn talar fyrir sig sjálfur. Á keppnistímabilinu sem leið vann hann allt sem hægt var að vinna hér heima í sínum flokki; Íslands- og bikarmeistaratitill, Reykjavíkurleikameistari, auk þess að vera valinn keppandi mótsins á því móti en bæði íslenskir og erlendir keppendur mæta á það mót í hvert sinn. Það er kannski við hæfi að taka það fram að Ágúst keppir uppfyrir sig í þyngdarflokki en -33kg flokkurinn sem hann tilheyrir er það fámennur að keppendur þar þurfa að eiga við sér þyngri keppendur og keppir hann iðulega í -37kg flokki. Þegar á erlenda grundu er komið keppir hann í sínum flokki þar sem fjöldi keppenda er eðlilegur.
Ólýsanleg tilfinnning
Ofan á þann frábæra árangur sem Ágúst hefur náð hér heima hefur hann vakið verðskuldaða athygli úti í heimi en sigur á opnu skosku móti og firnasterku opnu þýsku móti ættu að gefa ágæta mynd af möguleikum hans erlendis. Hann segir þó að sætasti sigurinn hafi komið á Evrópumótinu í Frakklandi þar sem hann náði í þriðja sætið á mótinu sem er besti árangur sem nokkur Íslendingur hefur náð i greininni. Hann segist hafa átt erfitt með að trúa því í fyrstu hvað hann hafði afrekað. „Það tók mig nokkra daga að taka það inn. Mér leið eins og ég hefði ekkert verið að keppa á neinu móti en þegar þetta síaðist inn hægt og rólega fylltist ég miklu stolti enda er þetta besti árangur sem Íslendingur hefur náð. Þetta var alveg ólýsanlegt.“
Ágúst fékk boð um að keppa á heimsmeistaramótinu í taekwondo sem fór fram í Suður-Kóreu, sem er fæðingarstaður íþróttarinnar. Þar náði hann í 9. sætið sem er frábær árangur. Aðspurður um þá lífsreynslu segir hann að allir sem beri svarta beltið verði að heimsækja landið a.m.k. einu sinni á lífsleiðinni. „Þetta er staður sem ekki margir fá að heimsækja. Ferðalagið var um 40 klukkustundir með biðinni á flugvöllum og tók það alveg smá á mann. Mótið var haldið í ótrúlega flottum taekwondo garði sem er eins konar „mekka” íþróttarinnar. Upplifunin er ótrúleg að koma þangað. Næsta heimsmeistarmót er eftir 2 ár og stefni ég þangað aftur til að keppa. Annars fer ég út til þess að horfa á. Það er klárt mál.“
Hlaðinn verðlaunum
Þekkir alla andstæðinga sína innanlands mjög vel
Þegar ég spyr hann útí muninn á því að keppa hér heima og erlendis segir Ágúst það vera eins og svart og hvítt þar sem að á Íslandi sé taekwondo heimurinn lítill. „Á Íslandi veit maður meira og minna allt um þá sem maður er að keppa við, veikleika og styrkleika, því maður hefur keppt svo oft við alla. Þegar við keppum erlendis eru næstum allir nýjir andstæðingar fyrir manni og höfum við verið að taka andstæðinga mína upp á myndband til að kortleggja þá. Það er meiri vinna sem fer í það að keppa úti. Það er samt dýrmætt að geta skoðað hverju maður þarf að verjast og hvar möguleikar manns liggja í því að sækja stig gegn þeim.
Fór með þjálfaranum í sumarfrí til að æfa fyrir HM
Það er ekki sjálfgefið að 14 ára unglingar geti látið drauma sína rætast og býr mikil vinna að baki þessum árangri. Ágúst segist fyrst og fremst vera þakklátur þeim góða stuðningi sem hann hefur á bakvið sig og segir hann ómetanlegan. „Ég er með mikinn sjálfsaga, reyni að borða hollt og fara snemma að sofa. Ég fæ mikinn stuðning frá foreldrum mínum og vinir mínir eru mjög duglegir að hjálpa til við undirbúning fyrir mót. Ég verð líka að koma inná hvað ég er heppinn með þjálfara en Helgi hefur reynst mér mjög dýrmætur.“ -en þar á Ágúst við Helga Rafn Guðmundsson sem hefur unnið frábært starf í þágu taekwondo á Suðurnesjum og víðar. „Þegar við fengum að vita að ég fengi að keppa á HM í Kóreu var hann á leiðinni í sumarfrí á Akureyri með konunni sinni og við ekki að fara að æfa neitt saman í góðan tíma. Þau ákvaðu í hvelli að bjóða mér og Ástrósu (Brynjarsdóttur, tvöföldum íþróttamanni Reykjanesbæjar) bara með sér norður svo við gætum undirbúið okkur fyrir mótið og æft eins og best væri á kosið. Það er bara ómetanlegt að hafa svona teymi á bakvið sig og er ég þeim mjög þakklátur.
Sáttur með eigin frammistöðu
Raula alltaf sama lagið til að peppa mig upp
Ágúst æfði tvisvar sinnum á dag í sumar sem að tók um 17 klukkustundir á viku. Þegar æfingabúðir voru haldnar gat sá tími farið uppí allt að 24 klukkustundir á viku. Hann segist samt eiga sér líf fyrir utan taekwondo. „Ég nota frítíma minn í að hreyfa mig öðruvísi, eins og að ganga fjöll, spila fótbolta og vera með vinum mínum. Ég meira að segja spila Fifa öðru hverju.“ -segir hann og tekur eftir því að ég verð svolítið hissa að svona metnaðarfullur strákur spili tölvuleiki yfir höfuð og hann hlær að mér fyrir einfaldleikann á bakvið þá hugsun. „Ég nýt þess líka að ferðast og upplifa nýja huti.“ Hann segir andlegu hliðina vera stóran part af því að ná því besta útúr sjálfum sér. „Andlega hliðin skiptir rosalega miklu máli. Ég undirbý mig ekkert öðruvísi fyrir mót heldur en venjulegar æfingar, reyni bara að hafa þetta sem líkast. Íþróttasálfræðilega nota ég svokallað sjálfstal til að koma mér í gang. Ég segi ákveðna hluti við sjálfan mig sem peppa mig upp og svo raula ég alltaf sama lagið áður en ég fer á gólfið fyrir mót. Ég veit ekki einu sinni hvað þetta lag heitir, ég bara heyrði það í sjónvarpinu í tengslum við síðustu Ólympíuleika og það hefur virkað fyrir mig.
Áður en ég kveð þennan glæsilega íþróttamann leikur mér hugur á að vita hvernig hann sjái fyrir sér framtíð sína í taekwondo og það stendur ekki á svarinu. „Ég er með lista sem ég bjó mér til með hlutum sem mér langar til að afreka. Ég vil ná í verðlaun á Íslandsmóti, vil ná í verðlaun á Evrópumóti og svo vil ég ná í verðlaun á heimsmeistaramóti. Ég geri ráð fyrir því að vera í taekwondo þangað til líkaminn segir að nú sé nóg komið.
Þorði ekki að keppa Ég næ í skottið á þjálfaranum Helga Rafni áður en ég yfirgef húsið og spyr hann út í framtíðarhorfur Ágústs. Helgi segir að Ágúst hafi margt til brunns að bera til að fara alla leið í íþróttinni. „Hann er einbeittur, ákveðinn, hlustar vel, sýnir góða íþróttamennsku, er hæfileikaríkur, snöggur, fyndinn og klár strákur. Það er auðvitað alltaf hægt að bæta einhver smáatriði ein heilt yfir þá býr hann yfir flestum þeim kostum sem þarf til að vera afreksíþróttamaður. Ef honum er alvara með að fara á Ólympíuleika eða á pall á heimsmeistaramóti þá getur hann það.“ -segir Helgi og hefur greinilega tröllatrú á sínum manni sem þó var ekki undrabarn í íþróttinni frá fyrsta degi og skýtur Helgi að skemmtilegum punkti áður en hann þarf að drífa sig aftur inn í sal að þjálfa næsta hóp; „Þegar Ágúst byrjaði í taekwondo þorði hann ekki að keppa. Í dag er hann reyndasti keppandi landsins í sínum aldursflokki.“