Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Pabbi á ekki roð í kallinn“
Myndir: Að ofan má sjá Val í baráttu við Justin Shouse. Að neðan er svo ein skemmtileg úr safni Víkurfrétta þegar Valur var að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki aðeins 14 ára gamall með Njarðvík.
Fimmtudagur 30. maí 2013 kl. 07:27

„Pabbi á ekki roð í kallinn“

Valur Orri Valsson kann líka að sparka í bolta

Valur Orri Valsson, leikstjórnandi Keflavíkur í körfuboltanum, virðist vera hæfileikaríkur á mörgum sviðum. Valur hefur vakið nokkra athygli fyrir þá staðreynd að hann spilar með 4. deildar liði Skallagríms í fótboltanum í sumar en þar hefur hann látið til sín taka. Valur bjó ásamt fjölskyldu sinni í Borgarnesi sem unglingur og þá æfði hann fótbolta á sumrin og körfubolta á veturna með Skallagrími. Einnig æfði hann fótbolta með Njarðvík og Keflavík á sínum yngri árum.

Þegar Valur 14 ára var hann valinn í úrtak fyrir unglingalandsliðið í fótboltanum en þá æfði hann aðeins fótbolta fjóra mánuði af árinu, hinir átta fóru í körfuboltann. Hann hætti algerlega í fótbolta þegar hann var í 3. flokki með Keflavík. Valur sem hefur skorað í báðum leikjum Skallagríms í sumar er sóknarsinnaður en hann leikur ýmist sem framherji eða í stöðunni fyrir aftan framherja. Hann hefur þó verið að koma inn sem hægri kantmaður með Skallagrími. En hefði Valur getað hugsað sér að leggja fótboltann fyrir sig? „Ekki spurning, ég myndi elska það,“ sagði Valur í samtali við Víkurfréttir en hans yrði þó örugglega saknað á körfuboltavellinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Valur er mikill áhugamaður um fótboltann en hann heldur með Keflavík í íslenska boltanum og styður Manchester United af ástríðu í enska boltanum. „Ég verð brjálaður ef ég missi af leik en ég hef alltaf fylgst með United.“ Leikmaðurinn Cristiano Ronaldo er í miklu uppáhaldi hjá Vali en hann var einnig mikill aðdáandi gömlu kempunnar Alessandro Del Piero sem lék með Juventus. „Ég átti búning með honum og elskaði hann sem krakki, hann er skýr í minningunni,“ segir Valur.

Betri sá sem skorar meira

Valur segist ekki vita til þess að margir körfuboltamenn séu að spila fótbolta en þó veit hann að Kjartan Atli Stjörnumaður er einnig í 4. Deildinni með Álftnesingum. En eru einhverjir körfuboltamenn þarna úti sem eru betri en þú í fótboltanum? „ Ég veit ekki hve margir eru að spila nema kannski Kjartan Atli, en það kemur í ljós hvor er betri á mörkum skoruðum i sumar,“ segir Valur og bætir við. „Annars var pabbi markakóngur i 4. deild í gamla daga en hann er langt frá því að eiga roð í kallinn,“ segir Valur og hlær. Hvað varðar liðsfélagana í Keflavík í körfuboltanum þá væri það helst fyrrum þjálfarinn Sigurður Ingimundarson, föðurbróðir Vals, sem gæti eitthvað. „Það mætti kannski segja að þetta sé í ættinni,“ segir Valur kíminn.

Valur sem starfar í sumar sem flokkstjóri í bæjarvinnunni, æfir körfubolta af fullum krafti í sumar og mætir bara í leiki með Skallagrími, þannig að Keflvíkingar geta búist við leikstjórnandanum í fanta formi á næsta tímabili en tímabilinu í fótbolltanum líkur líklega í byrjun ágúst hjá Vali Orra.

Hvor skorar fleiri mörk í sumar, Kjartan Atli eða Valur Orri?