Óvíst hvort Ólöf Helga leiki aftur körfubolta

„Versta sem ég hef lent í,“ segir þrautreyndur leikmaður Grindvíkinga

Ólöf Helga Pálsdóttir hefur nánast ekkert getað beitt sér á yfirstandandi tímabili með Grindvíkingum í Dominos-deild kvenna í körfubolta. Ástæðan er sú að Ólöf lenti í vinnuslysi sem varð til þess að taugaskemmdir hrjá hana í allri hægri hendinni. Hún getur ekkert leikið körfubolta og það sem verra er þá á hún í erfiðleikum með ýmsa hversdagslega hluti. Alls er óvíst hvort Ólöf muni leika körfubolta á þessu tímabili, jafnvel aldrei aftur.

Ólöf hefur einungis tekið þátt í tveimur leikjum með Grindvíkingum eftir að hún gekk til liðs við þær frá Njarðvík fyrir tímabilið. Ólöf er uppalinn Grindvíkingur en átti farsælan tíma í Njarðvík þar sem hún var fyrirliði tvölfaldra meistara í fyrra. Áður hafði Ólöf einnig unnið bikarmeistaratiltil með Grindvíkingum. Nú segist Ólöf jafnvel óttast að ferillinn sé í hættu en hún reynir þó að vera jákvæð. „Ég var kannski full jákvæð þegar þetta kom fyrst upp og fór geyst af stað. Ég byrjaði að spila og þá kom strax bakslag. Ég fór til einkaþjálfara og fannst ég verða orðin betri. Ég leitaði svo til sérfræðings sem sagði að ég mætti ekkert gera og um verulegar taugaskemmdir væri að ræða.“ Taugaskemmdirnar eru allt frá öxl og niður handlegg og fram í hendi. Ólöf hefur verið frá meira og minna síðan 1. ágúst á síðasta ári.


„Mér finnst ég stundum vera að skána en ef ég reyni á hendina þá dofnar hún upp og byrjar hreinlega að blána.“ Dagarnir eru misjafnir hjá Ólöfu en oft koma margir dagar í röð þar sem stöðugir verkir gera vart við sig. „Þetta er ömurlegt. Það versta sem ég hef lent í,“ segir Ólöf. Sérstaklega erfitt þykir henni að sitja hjálparlaus á hliðarlínunni og fylgjast með Grindvíkingum keppa. Þær gulklæddu eru sem stendur í næstneðsta sæti deildarinnar. „Það hefur ekki gengið eins vel og við vonuðumst til. Þetta eru mikið af stelpum sem eru að stíga sín fyrstu skref í úrvalsdeild. Þetta er þó bara eðlilegt og ég vona að við höldum okkur uppi í efstu deild. Þá munum við koma sterkari til leiks á næsta tímabili.“

Stutt hefur verið rækilega við bakið á Ólöfu og hún getur varla brugðið sér út fyrir hússins dyr án þess að fólk spyrji hana hvernig hún hafi það og hvetji hana áfram. Eins hafa allir sem koma að körfuboltaliðinu verið hjálpsamir og allir af vilja gerðir. Hún er Grindvíkingum þakklát fyrir hlýhuginn.

Ferillinn í hættu

Læknar hafa tjáð henni að skemmdirnar gætu verið varanlegar. Ólöf segir óvissuna varðandi það hvort hún hljóti lækningu vera mjög erfiða. Engin lausn virðist vera í sjónmáli og það tekur óneitanlega á sálina. „Þetta hefur verið mjög erfitt en ég reyni að vera bara mjög jákvæð. Ég hef hugsað til þess að hætta en reyni eftir fremsta megni að forðast þær hugsanir. Ég reyni að gera eins mikið og ég get til þess að halda mér við efnið. Körfubolti hefur verið líf mitt frá því að ég man eftir mér og því er þetta ótrúlega erfitt.“ Ólöf hefur verið að þjálfa og hún hefur fundið ástríðu fyrir því. Hún segist vel geta hugsað sér að snúa sér að þjálfun seinna meir. Hún er þó farin að huga að námi erlendis en hún hefur áhuga á því að sækja um í skóla í Los Angeles í Bandaríkjunum.

Lele sú besta sem leikið hefur hérlendis

Ólöf hefur fylgst með Njarðvíkingum og segir liðið efnilegt og nokkuð gott miðað við mikla blóðtöku sem liðið varð fyrir. „Þessar stelpur eru efnilegar og ég hef fulla trú á þeim í framtíðinni. Lele (Hardy) er líka ótrúlega góður leikmaður. Við erum heppin að hafa hana hérna á Íslandi. Ég held að ég hafi örugglega ekki séð jafn góðan erlendan leikmann í kvennadeildinni,“ segir Ólöf um fyrrum liðsfélaga sinn.

Ólöf hugsar með hlýhug til tímans hjá Njarðvík og hún átti í erfiðleikum með að kveðja. „Njarðvíkingar reyndust mér vel og þar er gott fólk. Mér fannst jafnvel erfiðara að fara þaðan en þegar ég fór fyrst frá Grindavík. Ég get huggað mig við það að ef ég þarf að hætta þá hætti ég á toppnum,“ en Ólöf segist hafa náð markmiðum sínum þegar Íslands- og bikarmeistaratitlarnir bættust í safnið hjá henni í fyrra.