Óveðrið olli tjóni í Leirunni
Óveðrið sem gekk yfir landið í byrjun vikunnar olli tjóni á mannvirkjum Golfklúbbs Suðurnesja á Hólmsvelli í Leiru eins og meðfylgjandi myndir sýna. Hluti grindverks við bílastæði gaf sig og þak ræsisskúrsins fauk af í heilu lagi.
Skúrinn er staðsettur við fyrsta teig Hólmsvallar og hefur margvíslegu hlutverki að gegna, þar hafa ræsar aðstöðu í mótum en auk þess leita kylfingar skjóls í kofanum á meðan beðið er eftir teig. Ræsisskúrinn er í daglegu tali kallaður Pálskot en það var Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, sem gaf Golfklúbbi Suðurnesja skúrinn á sínum tíma.