Óvænt tap Keflavíkurstúlkna
„Þetta gekk ekki nógu vel í dag þó svo að við höfum oft náð að spila ágætlega. ÍR-stelpurnar skoruðu mörkin og það telur,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkurstúlkna í 1. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu en þær töpuðu sínum fyrsta leik í deildinni 1-3 á móti ÍR sem hafði ekki skorað mark eða fengið stig í fyrstu tveimur umferðunum.
ÍR náði forystu á 14. mínútu en Katla María Þórðardóttir jafnaði fyrir Keflavík á 57. mín. eftir mjög langt innkast markamaskínunnar Sveindísar Jane Jónsdóttur. Boltinn datt fyrir Kötlu Maríu sem skoraði óverjandi hægra megin í mark ÍR.
Þegar flestir áttu von á því að heimastúlkur myndi láta kné fylgja kviði þá duttu þær niður og ÍR bætti við tveimur mörkum og sigruðu óvænt ungt lið Keflavíkur með þremur mörkum gegn einu.
Þrátt fyrir sigra í fyrstu tveimur leikjunum hafa Keflavíkurstúlkur ekki verið sannfærandi í byrjun móts. Þeim var spáð 3. sæti deildarinnar en þær voru nálægt því að komast í efstu deild eftir mjög góða frammistöðu í fyrra.
Gunnar þjálfari segir að stelpurnar hafi ekki náð að sýna sitt rétta andlit. Eftir flott mót í fyrra sé ljóst að andstæðingarnir taki á móti bítlabæjarliðinu með meiri virðingu og hörku og þá fái Sveindís Jane oft óblíðar mótttökur á vellinum.
„Við lékum ágætan fótbolta alveg þangað til við jöfnuðum en þá duttu stelpurnar einhvern veginn niður á óskiljanlegan hátt. Það er ljóst að þetta verður hörð barátta í sumar,“ sagði Gunnar Magnús.
Keflavíkurstúlkur áttu margar hættulegar sóknir en aðeins ein skilaði marki.
Sveindís Jane á enn eftir að komast á blað en hún var iðinn við markaskorunina í fyrra.
Boltinn á leið í markið eftir hornspyrnu ÍR-inga, þriðja markið staðreynd. Vörn Keflavíkur sofandi á verðinum.