Óvænt tap hjá Keflavík í fyrsta leik
- Keflavíkurstúlkur skoruðu aðeins átta stig í lokaleikhlutanum
Keflavík tapaði óvænt fyrir Val í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í Domino’s deild kvenna. Lokatölur urðu 54-64 og var leikið í Toyotahöllinni í Keflavík.
Keflavík var yfir í hálfleik 35-29 en leikur liðsins hrundi í seinni hálfleik og skoruðu Keflavíkurstúlkur aðeins átta stig í lokaleikhlutanum. Leikurinn var lítið fyrir augað og virkaði frekar eins og að liðin væru að leika sinn fyrsta leik á tímabilinu en fyrstu viðureign í úrslitakeppni.
Pálína Gunnlaugsdóttir var sú eina sem sýndi sitt rétta andlit í Keflavíkurliðinu í kvöld og var hún með 21 stig og sex fráköst. Aðrir leikmenn fóru ekki í tveggja stafa tölu. Róðurinn verður erfiður hjá deildar- og bikarmeisturum Keflavíkur. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaviðureignina og því góður möguleiki hjá Keflavík að komast áftam.
Keflavík-Valur 54-64 (12-8, 23-21, 11-15, 8-20)
Keflavík: Pálína Gunnlaugsdóttir 21/6 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 8, Jessica Ann Jenkins 8/5 stolnir, Sara Rún Hinriksdóttir 7/4 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 6/7 fráköst/4 varin skot, Ingunn Embla Kristínardóttir 3/6 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 1/5 fráköst.
Valur: Hallveig Jónsdóttir 17/4 fráköst, Jaleesa Butler 14/19 fráköst/5 stoðsendingar/7 varin skot, Kristrún Sigurjónsdóttir 11/11 fráköst, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 8/11 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 8/5 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 3/4 fráköst/6 stoðsendingar, Þórunn Bjarnadóttir 3/5 stoðsendingar.