Ótrúlegur árangur Njarðvíkurdrengja
10. flokkur Njarðvíkurdrengja tryggði sér um helgina Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik með sigri á Breiðabliki, 85-56 í úrslitaleik.
Drengirnir hafa verið með eindæmum sigursælir síðustu ár og hafa unnið alla titla sem í boði voru á grunnskólaaldri, fyrstir liða. Þá unnu þeir Scaniamótið tvö síðustu ár.
Frá árinu 2000, þegar þeir hófu keppni á Íslandsmóti, hafa þeir unnið 104 af 106 leikjum og hafa unnið 83 leiki í röð. Þeir töpuðu síðast 11. nóvember 2001, gegn Keflavík.
Fyrir utan titlana sem þeir hafa unnið í sínum flokki hafa þeir einnig unnið fjóra Íslands- og Bikarmeistaratitla þegar þeir keppa upp fyrir sig í flokkum.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari drengjanna hefur unnið með þeim síðustu 3 ár og ver einnig með þá fyrstu tvö árin í minniboltanum. Hann segir marga samverkandi þætti hafa skilað liðinu eins langt og raun ber vitni.
„Þessi árangur hefur kostað gríðarlega vinnu bæði hjá strákunum og öðrum sem koma að liðinu. Vil ég þá helst nefna Ingólf Ólafsson, fyrrverandi formann unglingaráðs og Einar Oddgeirsson núverandi formann auk Erlings Hannessonar sem hefur farið fyrir öflugum foreldrahópi. Strákarnir sjálfir hafa lagt mikið á sig, m.a. æft á sumrin þegar önnur lið taka því rólega og þannig að þetta eru margir samverkandi þættir sem skila þessum árangri.“
Þrátt fyrir óslitna sigurgöngu í áraraðir segir Einar Árni að værukærð sé eitthvað sem fyrirfinnst ekki hjá þeim og hafa þeir klárað alla sína leiki síðustu árin með miklum yfirburðum. „Það hefur sjaldan komið fyrir að þeir hafa misst einbeitinguna á vellinum og þegar það gerist eru þeir fljótir að ná sér upp aftur. Þeir eru afskaplega einbeittir og spila af fullum krafti allan tímann.“
Framtíð strákanna er björt á vellinum og er víst að ef fram fer sem horfir munu allnokkrir þeirra verða burðarásar í meistaraflokki Njarðvíkur.
„Ég hlakka til að fylgjast með þeim. Ég hef enga trú á öðru en að þeir haldi sínu striki,“ segir Einar að lokum.
Ítarleg grein um piltana á UMFN.is
Mynd/umfn.is