Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ótrúlegir yfirburðir
Sunnudagur 7. október 2007 kl. 19:05

Ótrúlegir yfirburðir

Keflavíkurstúlkur unnu sinn annan titil í körfubolta á einni viku þegar þær lögðu Hauka að velli í annað sinn. Að þessu sinni vannst bikarinn um meistara meistaranna. Keflavík vann yfirburða 32 stiga sigur, 84-52.

 

Haukar léku án síns erlenda leikmanns Kieru Hardy sem er meidd. Án hennar er liðið eins og höfuðlaus her og nýttu Keflvíkingar sér það til hins ítrasta. Þær pressuðu stíft allan leikinn og töpuðu Haukar fjölmörgum boltum.

 

Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn og leiddu Haukar um tíma en Keflvíkingar komust fljótlega yfir og eftir það létu þær forskotið aldrei af hendi. Í stöðunni 22-19 Keflavík í vil kom frábær kafli hjá suðurnesjastúlkum en þær skoruðu næstu 18 stig leiksins. Síðustu 5 stig fyrsta leikhluta og fyrstu 13 stig annars leikhluta og breyttu stöðunni í 19-40. Haukar náðu aðeins að klóra í bakkann í sókninni og skoruðu sex stig í leikhlutanum en Keflavík jók muninn og leiddu í hálfleik 25-49.

 

Ef Haukar áttu að eiga einhvern möguleika á sigri í þessum leik þurftu þær að nýta upphaf seinni hálfleiks vel og minnka muninn nokkuð hratt. En eins og Keflavík var að spila þá gáfu þær ekki færi á sér og Haukar náðu að minnka muninn um tvö stig áður en Keflavík jók muninn á ný og nú fór hann yfir 30 stig. Staðan eftir þrjá leikhluta var 35-65.

 

Fjórði og síðasti leikhlutinn var aðeins formsatriði fyrir Keflvíkinga og lokatölur 84-52. Sigurinn var sanngjarn í dag og Keflavík sterkari aðilinn allan tímann. Þær sýndu enga miskunn og pressuvörn þeirra gerði Haukum lífið leitt allan leikinn. Jón Halldór Eðvarsson, þjálfari Keflavíkur, hefur nýtt tímann vel síðan þessi lið spiluðu til úrslita í Powerade-bikarnum um síðustu helgi því liðið vann afar sannfærandi sigur í dag.

 

Stigahæst hjá Keflavík var Kesha Watson með 19 stig og þær Pálína Gunnlaugsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir skoruðu 14 stig ásamt því að Bryndís tók 11 fráköst.

 

Hjá Haukum var Kristrún Sigurjónsdóttir stigahæst með 19 stig. Ragna Margrét Brynjarsdóttir kom henni næst með 10 stig og hún tók einnig 13 fráköst.

 

VF-mynd: Stefán Þór Borgþórsson - frett@vf.is – Bryndís Guðmundsdóttir átti góðan dag í liði Keflavíkur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024