Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ótrúlegar lokamínútur í leik Keflavíkur og Vals
Sami Kamel fagnar marki sínu í gær. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 14. ágúst 2023 kl. 09:15

Ótrúlegar lokamínútur í leik Keflavíkur og Vals

Það var „stöngin út“ enn eina ferðina hjá Keflavík sem tók á móti Val í Bestu deild karla í knattspyrnu í gær. Keflavík lék stórvel og hélt sókn Vals í skefjum allt fram á síðustu mínútu uppbótartíma. Keflavík skoraði á 95. mínútu og leit út fyrir að mikilvægur sigur væri að líta dagsins ljós en það er stutt milli hláturs og gráturs og Valsmenn jöfnuðu strax í næstu sókn. Grátlegt jafntefli varð því niðurstaðan.

Leikurinn í gær var sá fyrsti hjá Keflavík undir stjórn Haraldar Freys Guðmundssonar og mátti marka breytt hugarfar hjá liðinu. Keflvíkingar börðust vel allan leikinn og héldu Völsurum niðri. Fyrri hálfleikur var jafn en eftir því sem leið á fór sókn Vals að þyngjast smám saman, vörn Keflavíkur var þó vandanum vaxin og hélt þeim fjarri hættusvæðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflavík lá til baka, lokaði svæðum og sóttu hratt fram þegar færi gáfust. Nokkrum sinnum vantaði aðeins herslumuninn á að klára sóknirnar en gestirnir héldu boltanum vel án þess að ná að skapa neina hættu.

Það var komið á fimmtu mínútu uppbótartíma þegar Sami Kamel skoraði og virtist vera að tryggja Keflavík mikilvæg stig í fallbaráttunni – en Adam var ekki lengi í Paradís og Valsmenn jöfnuðu strax í næstu sókn. Þeir léku upp hægri kantinn, sendu boltann fyrir en honum var fleytt áfram og endaði í innkasti frá vinstri sem Valsmenn fengu. Gestirnir tóku langt innkast og boltinn barst inn í markteig þar sem Birkir Már Sævarsson náði að reka tánna í boltann og senda hann framhjá Oleksii Kovtun sem var við það að skalla frá. Eins og sést á myndinni er spurning hvort ekki hefði verið rétt að dæma háskaleik á Birki sem fór hátt með fótinn en markið var dæmt gott og gilt. Burtséð frá þessu atviki þá höfðu Keflvíkingar tækifæri til að hreinsa frá áður en boltinn fór í innkast og hefðu betur gert það.

Dæmi hver fyrir sig en fóturinn á Birki var í andlitinu á Kovtun þegar hann skoraði jöfnunarmarkið.

Keflavík situr áfram á botni deildarinnar en miðað við frammistöðu liðsins í gær má jafnvel reikna eftir betri úrslitum í næstu leikjum – við vonum það alla vega.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og ræddi við Harald Frey eftir leik. Myndir og viðtalið eru hér fyrir neðan.

Keflavík - Valur (1:1) | Besta deild karla 13. ágúst 2023