Ótrúleg endurkoma Njarðvíkinga
Háspenna og dramatík í Keflavík
Njarðvíkingar unnu sterkan sigur á grönnum sínum úr Keflavík á útivelli eftir að hafa verið undir með 15 stigum fyrir síðasta leikhluta. Njarðvíkingar áttu magnaða endurkomu og unnu 86:92 eftir að hafa sigrað síðasta leikhluta 16:31.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Keflvíkingar virtust ætla að landa sigri í þriðja leikhluta. Njarðvíkingar virkuðu þá þreyttir og pirraðir. Það átti þó eftir að breytast og taflið snerist við. Lokamínútnar voru æsispennandi og á tímabili ætlaði allt um koll að keyra í stúkunni sem var þéttsetin.
Haukur Helgi fór fyrir Njarðvíkingum með 24 stig og 12 fráköst og Atkinson sem virkaði ryðgaður í upphafi, hristi af sér slenið og setti 18 stig og 10 fráköst.
Bandaríkjamennirnir Reggie og Earl voru bestir Keflvíkinga, Reggie með 22 stig og spilaði frábæra vörn að vanda, á meðan Earl skilaði 19 stigum og 13 fráköstum.
Keflavík-Njarðvík 86-92 (21-23, 22-16, 27-22, 16-31)
Keflavík: Reggie Dupree 22/4 fráköst, Earl Brown Jr. 19/13 fráköst, Magnús Már Traustason 12/6 fráköst, Valur Orri Valsson 10/8 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 8, Davíð Páll Hermannsson 7/6 fráköst, Guðmundur Jónsson 4/5 fráköst, Ágúst Orrason 4/8 fráköst.
Njarðvík: Haukur Helgi Pálsson 24/12 fráköst/6 stoðsendingar, Jeremy Martez Atkinson 18/10 fráköst, Logi Gunnarsson 17, Oddur Rúnar Kristjánsson 12/4 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 10, Ólafur Helgi Jónsson 9/4 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 2.