Óskar semur við Grindavík til þriggja ára
Markvörðurinn Óskar Pétursson verður áfram hjá Grindavík til næstu þriggja ára eftir að hafa skrifað undir nýjan samning við félagið. Óskar, sem er 22ja ára gamall, lék mjög vel í sumar hjá Grindvíkingum og átti stóran þátt í því að félagið hélt sæti sínu í Pepsi-deildinni. Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkur.
Óskar var valinn leikmaður ársins á lokahófi Grindavíkur og einnig valinn íþróttamaður ársins 2011 í Grindavík. Nokkur félög sýndu því áhuga að fá Óskar í sínar raðir eftir tímabilið en hann ákvað að dvelja áfram hjá Grindavík.
Óskar hefur samtals leikið 84 meistaraflokksleiki með Grindvíkingum og þá á hann fimm leiki að baki með yngri landsliðum Íslands.