Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Öruggur sigur Keflavíkur á Snæfelli
Sunnudagur 28. nóvember 2004 kl. 21:56

Öruggur sigur Keflavíkur á Snæfelli

Keflavík sigraði Snæfell í kvöld, 102-86, í stórleik 32-liða úrslita bikarkeppni karla.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn, sem fór fram á heimavelli þeirra, af miklum krafti og náðu fljótlega 12 stiga forystu, 17-5, þar sem Magnús Gunnarsson, Nick Bradford og Gunnar Einarsson fóru á kostum. Snæfellingar voru furðu daprir í leiknum þar sem þeir áttu fá svör gegn góðri vörn heimamanna og komust aldrei í takt við leikinn.
Staðan eftir fyrsta leikhluta var 33-18.

Í öðrum leikhluta var boðið upp á sömu dagskrá þar sem Keflvíkingar náðu 20 stiga forskoti, en gestirnir réttu sinn hlut eilítið þar sem Desmond Peoples og Sigurður Þorvaldsson skoruðu saman 8 stig í röð og minnkuðu muninn í 12 stig.

Eftir það tóku Keflvíkingar aftur við stjórninni og leiddu í hálfleik, 54-34.

Eftir hálfleik náðu Keflvíkingar mest 23 stiga forskoti. Snæfell átti fá svör við sterkri svæðisvörn Keflavíkur þar sem Sverrir Þór Sverrisson átti góða innkomu og hélt Pierre Green í skefjum.
Snæfellingar klóruðu lítið eitt í bakkann í lok þriðja leikhluta og í upphafi þess fjórða þar sem munurinn fór niður í 11 stig, 77-66, en lengra komust þeir ekki og Keflvíkingar þurftu ekki að hafa mikið fyrir leiknum það sem eftir lifði. Vert er að geta framlags Elentínusar Margeirssonar sem kom inná og stóð sig með mikilli prýði á báðum endum vallarins.
Magnús Þór kláraði leikinn með því að skora 10 stig á lokakaflanum þar sem Keflavík tryggði sér sæti í 16-liða úrslitunum með glæsibrag.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/Þorgils Jónsson, Jón Björn Ólafsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024