Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Miðvikudagur 29. október 2003 kl. 21:12

Öruggur sigur Keflavíkur!

Keflavík vann öruggan sigur, 58-90, í nágrannaslagnum við Njarðvík í 1. deild kvenna í kvöld.
Keflavík rétti þar með úr kútnum eftir tvo tapleiki í röð í deildinni og sýndu loks sitt rétta andlit. Þær spiluðu mjög góðan bolta bæði í vörn og sókn og börðust ákaft um allan völl, sem er nokkuð sem hefur vantað upp á síðkastið. „Þetta er allt annað að sjá til liðsins!“, sagði Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur eftir leikinn. „Við komum tilbúin að spila og berjast og stelpurnar voru duglegar í fráköstunum. Við virðumst lokins vera vöknuð af Þyrnirósarsvefninum!“
Sókn Keflavíkur gekk óhemju vel í leiknum þar sem boltinn gekk hratt á milli manna og flestar sóknir enduðu með auðveldu skoti og eins lögðu þær mikið á sig í vörninni sem skilaði sér í því að Njarðvík hitti úr innan við fjórðungi af tveggja stiga skotum sínum.
Njarðvíkurstúlkur sýndu af sér mikla baráttugleði í kvöld og gáfust aldrei upp þrátt fyrir að Keflavík leiddi lengst af. Stigamunurinn var aldrei óyfirstíganlegur fyrr en í síðasta leikhluta en þá sigu gestirnir lengra framúr og tryggðu sér öruggan sigur. Auður Jónsdóttir, fyrirliði Njarðvíkur, sagði að það mætti segja að hennar stúlkur væru komnar niður á jörðina eftir velgengni síðustu leikja. „Keflavík var bara að spila mjög góða svæðisvörn sem við áttum lítið svar við.“

Í liði Keflavíkur var Birna Valgarðsdóttir stigahæst með 19 stig og Erla Þorsteinsdóttir skoraði 17 stig þrátt fyrir að hafa verið hvíld mestallan leikinn. Í herbúðum Njarðvíkinga dró Andrea Gaines vagninn eins og endranær. Hún skoraði 17 stig og var auk þess mjög öflug í vörninni en Auður Jónsdóttir kom næst henni með 11 stig.

Að leik þessum loknum eru liðin jöfn að stigum í öðru sæti deildarinnar með sex stig, tveimur á eftir toppliði ÍS. Fimmtu umferð deildarinnar lýkur annað kvöld þegar Grindavík tekur á móti KR-stúlkum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024