Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Öruggur sigur í Blue-höllinni
Dominykas Milka sýndi stórgóðan leik og var hrikalegar sterkur undir körfunni. Hann var stiga- og framlagshæstur Keflvíkingar, með 25 stig og 28 framlagspunkta. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 4. nóvember 2022 kl. 10:38

Öruggur sigur í Blue-höllinni

Keflvíkingar keyrðu leikinn í gang þegar þeir tóku á móti Haukum á Sunnubrautinni í Subway-deild karla í gærkvöldi. Heimamenn fóru hamförum í byrjun og náðu fljótlega afgerandi forskoti, eftir fyrsta leikhluta munaði sautján stigum (36:19) og bilið átti eftir að breikka enn meira. Að lokum hafðist góður sigur og Keflavík er í efsta sæti Subway-deildarinnar ásamt Val og Breiðablik, öll með fjóra sigra og eitt tap.

Keflavík - Haukar 106:84

(36:19, 25:30, 25:19, 20:16)
Keflvíkingar sölluðu niður þristum í fyrsta leikhluta og gersamlega keyrðu yfir gestina. Halldór Garðar Hermannsson setur niður þrjú af sínum ellefu stigum.

Keflavík réði lögum og lofum í upphafi leiks og Keflvíkingar náðu mest 27 stiga forskoti á gestina (49:22). Haukar tóku að ná áttum um miðjan annan leikhluta og gerðu vel að minnka muninn í tólf stig fyrir hálfleik (61:49).

Gestirnir héldu áfram að pressa á heimamenn í þriðja leikhluta og náðu muninum í níu stig (69:60) en Keflvíkingar náðu þá góðum kafla og höfðu átján stig í farteskinu fyrir fjórða og síðasta leihluta (86:68). Haukar mættu með offorsi í fjórða leikhluta og skoruðu fyrstu sjö stigin (86:73) en Keflvíkingar voru ekkert á þeim buxunum að tapa forystunni. Eric Ayala svaraði með þristi og það slökkti í Haukum. Lokatölur 106:84 og Keflavík fer inn í landsleikjahlé á toppi deildarinnar ásamt Val og Breiðabliki. Njarðvíkingar geta bætt sér í hópinn með sigri í kvöld þegar þeir taka á móti Grindvíkingum í Ljónagryfjunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heilt yfir voru leikmenn Keflavíkur að spila vel í gær en þeir Hörður Axel Vilhjálmsson og Jaka Brodnik eru enn ekki orðnir leikfærir. Dominykas Milka var öflugur og skoraði 25 stig auk þess að hirða níu fráköst, þá setti Eric Ayala niður 21 stig og tók sex fráköst.

Valur Orri Valsson ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hér keyrir hann á Norbertas Giga og niður fór boltinn.

Keflavík: Dominykas Milka 25/9 fráköst, Eric Ayala 21/6 fráköst, Igor Maric 16/5 fráköst, Ólafur Ingi Styrmisson 12/9 fráköst, Valur Orri Valsson 12/6 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 11/4 fráköst, David Okeke 6/5 fráköst, Arnór Sveinsson 3, Nikola Orelj 0, Magnús Pétursson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Yngvi Freyr Óskarsson 0.

Nánar um leikinn.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og tók meðfylgjandi ljósmyndir, fleiri myndir eru neðst í fréttinni.

Keflavík - Haukar (106:84) | Subway-deild karla 3. nóvember 2022