Öruggur sigur HKR í fyrsta heimaleik vetrarins
Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar, HKR, vann öruggan sigur á Leiftra í fyrsta heimaleik sínum í utandeildinni í handknattleik í kvöld. Lokatölur voru 39-30 en staðan í hálfleik var 22-18 fyrir HKR.
Leikið var í íþróttahúsinu á Vallarheiði, sem er heimavöllur HKR.
Í síðustu viku mætti liðið Aftureldingu í spennandi leik þar sem liðin skildu jöfn. Lokatölur leiksins urðu 32-32 þar sem HKR átti góðan möguleika á að fara með sigur af hólmi.
Mikill uppgangur hefur verið hjá liðinu á þeim skamma tíma sem félagið hefur verið til og má búast við að liðið muni bæta sig með hverjum leiknum sem líður í vetur.
Meðfylgjandi ljósmyndir tók Hilmar Bragi á leiknum í kvöld.