Öruggur sigur hjá Njarðvík
Njarðvík vann öruggan sigur á Breiðabliki í gærkvöldi í Powerade-bikar karla. Leikið var í Ljónagryfjunni í Njarðvík og urðu lokatölur leiksins, 84-68, heimamönnum í vil. Þetta var fyrsti alvöru leikurinn undir stjórn Vals Ingimundarsonar, sem tók við liðinu fyrir tímabilið.
Magnús Þór Gunnarsson var atkvæðamestur í liði Njarðvíkur með 22 stig og tók einnig fimm fráköst. Bandaríkjamaðurinn Heath Sitton skoraði 14 stig og tók fimm fráköst. Logi Gunnarsson lék sinn fyrsta leik með Njarðvík frá því árið 2002. Hann skoraði 13 stig og tók fimm fráköst. Friðrik Stefánsson var öflugur undir körfunni hjá Njarðvík, skoraði 12 stig og tók 11 fráköst.
Njarðvík er þar með komið áfram og mætir Grindvíkingum í átta liða úrslitum á morgun í Grindavík. Búast má við hörkuleik og hefst leikurinn kl. 19:15.
Mynd/kki.is: Logi Gunnarsson skoraði 13 stig fyrir Njarðvík í gær.