Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Öruggur sigur hjá KR á Keflavíkurvelli
Mánudagur 17. september 2007 kl. 20:22

Öruggur sigur hjá KR á Keflavíkurvelli

Olga Færseth og liðsfélagar hennar í KR gerðu góða ferð til Keflavíkur í kvöld. KR lagði Keflavík 0-4 í miklum rigningarslag í síðustu umferð Landsbankadeildar kvenna í knattspyrnu. Valskonur eru Íslandsmeistarar eftir öruggan 10-0 sigur á Þór/KA á Valbjarnarvelli í Reykjavík. KR konur fengu afhent silfurverðlaunin í hráslaganum í Keflavík og létu sér duga að syngja um að þær væru næstlangbesta liðið á Íslandi. Keflavík lauk keppni í ár í 4. sæti deildarinnar. Keflavík og KR munu svo mætast að nýju á laugardag þegar liðin leika til VISA bikarúrslita.

 

Gestirnir úr Vesturbænum hófu leik gegn vindi en það skipti ekki sköpum því KR réði lögum og lofum inni á vellinum. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru mjög erfiðar, völlurinn blautur og þungur og boltinn átti það til að stoppa í stórum pollum.

 

Keflavík stóð vel af sér árásir KR-inga í upphafi leiks og skipti miklu að Jelena Petrovic fór hreinlega á kostum í Keflavíkurmarkinu og varði hvert dauðafærið á fætur öðru.

 

Varnarmúr Keflavíkur gaf loks eftir á 28. mínútu þegar Hólmfríður Magnúsdóttir kom vaðandi upp hægri kantinn og átti bogaskot yfir Jelenu í markinu og staðan orðin 0-1 KR í vil. Ekki var lengi að bíða næsta marks þegar Hólmfríður var aftur að verki fjórum mínútum síðar. Þá nýtti hún sér mistök í vörn Keflavíkur, vann dauðan bolta skammt við teig Keflavíkur og renndi honum örugglega í netið og staðan 2-0. Þannig stóðu leikar í hálfleik og fátt sem benti til þess að Keflavík ætti eftir að minnka muninn.

 

Rétt rúmar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þegar Olga Færseth jók mun KR í 3-0 og á 66. mínút bætt Olga sínu öðru marki við og fjórða marki KR og sigurinn þar með endanlega í höfn hjá KR sem og silfrið.

 

Gestirnir úr Vesturbænum höfðu töluverða yfirburði á Keflavíkurvelli í kvöld og áttu Keflvíkingar fá markverð tækifæri. Þó komu eitt og eitt hálffæri hjá Keflvíkingum sem voru ekki að finna taktinn þau fáu skipti sem liðið komst nálægt marki andstæðinga sinna.

 

Ljóst er að við ramman reip verður að draga hjá Keflavík á laugardag í bikarúrslitunum á Laugardalsvelli en þó má búast við þeim sterkari þar sem Danka Padovac kemur að nýju inn í hópinn og þá er von á að Guðný Petrína Þórðardóttir verði í framlínunni þar sem hún hefur átt við meiðsli að stríða lungann af sumrinu.

 

Bikarúrslitaleikur Keflavíkur og KR hefst á laugardag kl. 16:00 og er fólk hvatt til að fjölmenna á völlinn og styðja duglega við bakið á sínu liði. Suðurnesjamenn eru sérstaklega hvattir til að fjölmenna og styðja við bakið á Keflavík en liðið tekur á laugardag þátt í sínum öðrum bikarúrslitaleik í sögu félagsins.

 

VF-Myndir/ Hilmar Bragi Bárðarson - [email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024