Öruggur sigur hjá Keflavík - 16 ára leikmaður fór mikinn
Keflavíkurstúlkur unnu öruggan sigur á Hamri í Domino’s deildinni í körfubolta í TM-höllinni í gær. Lokatölur urðu 86-47.
Keflvíkingar höfðu mikla yfirburði í leiknum eins og tölurnar gefa til kynna. Hjá Keflavík voru fimm leikmenn með yfir tíu stig. Melissa Zorning skoraði 22 stig og tók 5 fráköst. Hin unga Þóranna Kika Hodge-Carr var með 12/9 og sýndi mjög flott tilþrif. Greinilegt að þarna er á ferðinni mikið efni hjá þessari sextán ára stúlku. Guðlaug Björt Júlíusdóttir var með 11/7, Marín Laufey Davíðsdóttir 10/5 og Sandra Lind Þrastardóttir 10/12.
Hjá Hamri skoraði Salbjörg R. Sævarsdóttir 12/8.
Ljóst er að Keflavíkurliðið er geysilega efnilegt en nær allur hópurinn er undir tvítugu og framtíðin því björt. Fyrrnefnd Þóranna fór mikinn og nú er spurning hvort fleiri ungar stúlkur í Keflavíkurliðinu eigi eftir að stíga fram á sjónarsviðið.
Næstu leikir í kvennaboltanum eru á miðvikdaginn en þá fara Grindavíkurstúlkur í Hveragerði og mæta Hamri og Keflavík heimsækir Stjörnuna í Garðabæ.
Tvær af lykilleikmönnum Keflavíkur, Melissa Zorning skorar hér en Sandra Lind Þrastardóttir fylgist vel með.