Öruggur sigur hjá Grindavík
Grindvíkingar virðast vera hrokknir í gang í Lengjudeildinni, þeir þokast stöðugt ofar á töflunni og eru nú komnir í fimmta sæti eftir öruggan sigur á Magna á Grindavíkurvelli í dag.
Grindvíkingar tóku völdin snemma í leiknum og sókn þeirra þyngdist í sífellu, það var þó ekki fyrr en á 25. mínútu að fyrsta markið leit dagsins ljós eftir slæm mistök í vörn Magna þar sem boltinn barst til Odds Inga Bjarnasonar sem þakkaði fyrir sig með skoti og marki.
Annað mark Grindavíkur skoraði Sigurjón Rúnarsson eftir hornspyrnuklafs á 38. mínútu og heimamenn komnir í 2:0.
Heimamenn nýttu sér að leika undan vindi í fyrri hálfleik og rétt áður en blásið var til leikhlés skoraði Oddur Ingi annað mark sitt og þriðja mark Grindvíkinga. Staðan 3:0 í hálfleik.
Það rigndi í Grindavík og völlurinn var blautur og þungur enda dró af leikmönnum í seinni hálfleik. Magnamenn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn án árangurs.
Rétt fyrir leikslok fékk Magni hornspyrnu og fór hún af leikmanni Grindavíkur í eigið mark.
Lokatölur 3:1 og Grindavík kemst upp fyrir Þór frá Akureyri sem tapaði gegn Fram. Grindavík er nú einu stigi á eftir ÍBV, sem er í fjórða sæti, en Grindvíkingar hafa leikið einu leik færra og sigri þeir hann geta þeir komist upp í fjórða sætið.
Hilmar Bragi, ljósmyndari Víkurfrétta, skellti sér á völlinn og tók meðfylgjandi myndir.