Öruggur sigur Grindvíkinga
Topplið Iceland Express-deildar karla, Grindavík átti ekki í teljandi vandræðum með 1. deildarlið KFÍ í Lengjubikarnum í kvöld. Grindvíkingar sigruðu örugglega með 100 stigum gegn 75 en leikurinn fór fram á Ísafirði.
Leikurinn var aldrei jafn og gestirnir frá Grindavík voru ávallt með yfirhöndina enda með gríðarlega öflugt lið. Það sást líka vel á stigaskorinu enda komust 9 leikmenn á blað hjá þeim gulklæddu og dreifðist stigaskorið ótrúlega vel.
Atkvæðamestir voru þeir Giordan Watson með 18 stig, Jóhann Árni Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson 13 stig, Páll Axel Vilbergsson og tveir aðrir leikmenn voru svo með 11 stig og Ólafur Ólafsson var með 10 stig, sannarlega bróðurlega deilt á milli Grindvíkinga.