Öruggur sigur á gestgjöfunum
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik hélt áfram sigurför sinni á Smáþjóðaleikunum í Mónakó í gær. Gestgjafarnir í Mónakó voru fórnarlömb Íslendinga að þessu sinni en lokatölur leiksins voru 86-65 íslenska liðinu í vil.
Leikurinn þróaðist eins og aðrir leikir Íslands á mótinu hingað til, nema ef vera kynni fyrstu mínútur leiksins. Eftir jafnræði fyrstu mínúturnar, þar sem Mónakó var með forystuna 8-10, tóku Íslendingar við sér, skoruðu 21 stig í röð og breyttu stöðunni í 29-10. Heimamenn náðu að minnka muninn fyrir lok fyrsta leikhluta í 29-17, en komust aldrei nær. Eins og áður sagði voru lokatölur 86-65, en sigurinn þýðir að leikur Íslands og Kýpur á laugardag er þá úrslitaleikur mótsins.
Ísland-Mónakó 86-65 (29-17, 45-31, 65-52)
Stigaskor íslenska liðsins
Brenton Birmingham 19 stig (2/2 í þriggja, 5/6 í tveggja, 3 stolnir)
Páll Axel Vilbergsson 17 stig (5/8 í þriggja, 5 fráköst)
Hreggviður Magnússon 12 stig
Helgi Már Magnússon 9 stig (4 fráköst)
Logi Gunnarsson 9 stig
Brynjar Björnsson 8 stig
Hörður Axel Vilhjálmsson 5 stig (6 stolnir)
Þorleifur Ólafsson 3 stig
Friðrik E. Stefánsson 2 stig (9 fráköst)
Jóhann Árni Ólafsson 2 stig
Kristinn Jónasson (5 fráköst) og Magnús Gunnarsson (4 fráköst) náðu ekki að skora.
Ísland mætir San Marinó í dag og sá leikur skiptir litlu máli því úrslitaleikurinn er gegn Kýpur á laugardag.
VF-mynd/ Brenton Birmingham hefur farið mikinn með íslenska liðinu í Mónakó.