Öruggur Keflavíkursigur: Þetta er allt að koma, sagði Sigurður Ingimundarson
„Þetta er allt að koma. Við eigum bara eftir að verða betri,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Íslandsmeistara Keflavíkur eftir öruggan sigur á ÍR í Iceland Express deildinni í körfubolta. Lokatölur urðu 92-69.
„Við vorum góðir í tveimur fjórðungum en lélegir í hinum tveimur en það er eðilegt. Mótið er rétt að byrja og við erum að slípa saman nánast nýtt lið. Það voru fjórir ungir peyjar í liðinu sem eru að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki, allt efnilegir strákar sem eiga bara eftir að vaxa,“ sagði Siggi og var ánægður með sigurinn sem var mjög öruggur þrátt fyrir slaka byrjun heimamanna. ÍR komst í 5-12 og 11-20 í fyrsta fjórðungi en þá fóru meistararnir í gang og skoruðu tuttugu stig í röð og leiddu í hálfleik með þeim mun, 46-26. ÍR skoraði ekki nema 6 stig í öllum fjórðungnum og það hlýtur að vera nálægt meti í deildinni.
Þriðji leikhlutinn var ekki góður hjá Keflavík og ÍR minnkaði muninn í 11 stig en nýja Keflavíkurhraðlestin fór í gang og munurinn varð aftur tuttugu stig og þegar flautað var til leikhlés 23ja stiga munur, 92-69.
Gunnar Einarsson, besti leikmaður úrslitakeppninnar á síðustu leiktíð hefur byrjað mótið vel. „Hann er í feikna formi drengurinn. Það er got tog gaman fyrir ungu strákana í liðinu að sjá Gunna. Hann sýnir mikið fordæmi í æfingum og aga“. Gunnar skoraði 25 stig en risinn í teignum, Sigurður Þorsteinsson sem er sífellt að bæta sig sem leikmaður var með 22 stig. Sama má segja um Þröst Jóhannsson sem skoraði 17 stig en þeir þrír og nýliðinn Hörður Axel Vilhjálmsson sem skoraði 14 stig voru burðarásar meistaranna.
Hjá ÍR skoraði Sveinbjörn Claessen mest eða 18 stig.