Öruggur Keflavíkursigur í grannaslag
Keflavík sigraði Njarðvík 91-72 þegar liðin áttust við um helgina í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Toyotahöllinni.
Jafnt var á með liðunum í byrjun en staðan var 22-21 fyrir Keflvík í lok fyrsta fjórðungs. Í öðrum leikhluta höfðu heimakonur öll völd á vellinum og skoruðu 32 stig gegn 16. Staðan í hálffleik var 54 – 37 fyrir Keflavík.
Keflvíkingar höfðu leikinn í hendi sér í síðari hálffleik lítið gekk hjá Njarðvíkurkonum sem þurftu m.a. að horfa á eftir Ditu Liepkalne af leikvelli í þriðja leikhluta vegna meiðsla.
Jacquline Adamshick var gríðarlega öflug í liði Keflvíkinga, skoraði 31 stig og hirti 19 fráköst. Shayla Fields skoraði 32 stig fyrir Njarðvík og hirti 12 fráköst.
Grindavíkurkonur sóttu Fjölni heim og töpuðu naumt með þriggja stiga mun 60-57. Crystal Ann Boyd skoraði 24 stig fyrir Grindavík og Helga Hallgrímsdóttir hirti 12 fráköst.
Staðan í deildinni er þessi:
Mynd/www.karfan.is - Jacquline Adamshick fór mikinn í leik Keflavíkur gegn Njarðvík.