Öruggur Keflavíkursigur á Þór
Keflvíkingar halda sigurgöngu sinni áfram í Domino’s deild karla í körfubolta en þeir sigruðu Þór frá Þorlákshöfn í TM-höllinni í Keflavík í kvöld með nítján stiga mun, 98-79.
Keflvíkingar voru með tögl og haldir í leiknum og sigur þeirra var eiginlega aldrei í hættu.
Heimamenn leiddu í hálfleik 53-42 en það var aðeins í þriðja leikhluta sem gestirnir frá þorpinu á Suðurlandi sýndu alvöru lit en það dugði ekki. Bítlabæjarliðið gaf í á nýjan leik og sýndi mátt sinn og meginn og innbirti stórsigur. Ameríkaninn í Keflavíkurliðinu, Cameron Fore hefur verið gríðarlega öflugur að undanförnu og sýndi það áfram í þessum leik.
Það voru margir sem höfðu áhyggjur því Keflvíkingar voru með einn besta útlending sem hefur komið til landsins á síðustu leiktíð. Cameron Forte er mjög góður leikmaður. Hann skoraði 27 stig, var með 11 fráköst og 5 stoðsendingar. Ágúst Orrason var með 13 stig eins og Reggie Dupree sem verður betri með hverju árinu. Tíu leikmenn af 12 skoruðu hjá Keflavík. Liðið virkar sannfærandi þó það hafi misst Hörð Axel Vilhjálmsson, landsliðsmann. Ungir leikmenn hafa komið í hópinn og standa sig vel.
Þórsarar voru ekki sannfærandi en Jessi Pellot-Rosa skoraði 29 stig hjá þeim.
Reggie Dupree lék vel með Keflavík og skoraði 13 stig. Hér er hann í eldlínunni í leiknum. gegn Þór. VF-myndir/hilmarbragi.
Guðmundur Jónsson á fullri ferð gegn Þór. Bróðir hans, Ólafur Helgi leikur með Þór.
Daði Lár sækir að leikmanni Þórs.