Öruggur Keflavíkursigur á Hamri
Keflavíkurstúlkur halda áfram á sigurbrautinni en þær lögðu lið Hamars í gær nokkuð örugglega, 72-53 í áttundu umferð Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik. Lið Hamars er í öðru sæti deildarinnar næst á eftir hinu geysisterka liði KR. Keflavík er í fjórða sæti og á uppleið eftir slæma byrjun á Íslandsmótinu
Fyrri hluti leiksins var nokkuð þófkenndur, talsvert var um mistök á báða bóga og skotnýting afar léleg eins á sást á stöðunni í hálfleik sem var 26-22 Hamri í vil.
Það var allt annað að sjá til Keflavíkurliðsins í seinni hálfleik. Þær léku af festu og sjálfsöryggi sem skilaði þeim fljótlega góðu forskoti án þess að Hamarsstúkur fengu rönd við reist. Fljótlega í fjórða leikhluta var ljóst í hvað stefndi.
Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 23 stig fyrir Keflavík og Birna Valgarðsdóttir 15 stig, öll í seinni hálfleik. Þá var Rannveig Randversdóttir öflug í liði Keflavíkur, var grimm í vörninni og stal mikilvægum boltum.
---
VFmynd/pket – Bryndís Guðmundsdóttir átti góðan leik með Keflavík í gær.