Öruggur Keflavíkursigur á Fjölni 3:1 - Ætlum okkur að vera í efri helmingnum - segir Kristján þjálfari
„Við erum með þessum sigri að gefa það út að við ætlum okkur að vera í efri helmingi deildarinnar. Þetta var góður sigur,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur eftir sigurleik gegn Fjölni í kvöld á Sparisjóðsvellinum. Keflvíkingar skoruðu þrjú mörk gegn einu Fjölnismanna og var sigur heimamanna aldrei í hættu.
Það var hinn ungi Magnús Þórir Matthíasson sem kom Keflvíkingum á bragðið með fallegu marki á 13. mínútu. Hörður Sveinsson fékk boltann inn í teig hægra megin og gaf góða sendingu á Magnús sem skilaði boltanum örugglega í netið 1:0.
Heimamenn létu kné fylgja kviði með öðru marki. Þar var að verki nafni fyrrnefnda skorarans, Magnús nokkur Þorsteinsson. Hörður Sveinsson sýndi skemmtilega takta þegar hann lét boltann, sem var á leið til hans fara fram hjá sér en hann endaði hjá Simun Samuelsen sem gaf á Magnús Þorsteinsson sem skoraði 2:0 á 21. mínútu.
Bæði liðin áttu sitt hvort dauðafærið fram að leikhléi, Fyrst Nicolai Jörgensen sem hefði getað komið Keflavík í 3:0 þegar hann fékk boltann rétt innan við teiginn en hann er vanur að vera á þessum slóðum og skot hans fór langt yfir. Einn Fjölnismanna komst svo einn í gegnum vörn Keflavíkur en Daninn Jörgensen í Keflavíkurmarkinu sá við honum.
Staðan 2:0 í hálfleik og það var ekki áhyggjusvipur á stuðningsmönnum Keflavíkur í leikhlé því gestirnir höfðu ekki sýnt flotta fótboltatakta í fyrri hálfleik. Þeir komu hins vegar sterkari inn í síðari hálfleikinn án þess þó að skapa sér hættuleg tækifæri. Keflvíkingar voru heldur mikið til baka þó svo að nokkrar sóknir hafi skapað hættu við mark gestanna. Ein sóknin skilaði þó marki. Þar var vel að verki staðið í skemmtilegu samspili Magnúsar Þorsteinssonar og Simuns Samuelssonar sem skilaði boltanum til Hauks Inga Guðnasonar, sem var nýkominn inn á, hann snéri sér með boltann og skoraði 3:0.
Gestirnir fengu vítaspyrnu á 86. mínútu eftir brot Lasse markvarðar, 3:1 og það urðu lokatölurnar í kvöld.
„Við mættum með miklum krafti í byrjun leiks eins og oft áður í sumar og það skilaði okkur tveimur mörkum. Við misstum aðeins dampinn í spilinu en ég er engu að síður ánægður með sigurinn,“ sagði Kristján þjálfari eftir leikinn.
Er erfitt að stilla upp liðinu í ljósi meiðsla hjá nokkum lykilmanna liðsins?
„Já, ég get ekki neitað því. Þegar maður er með færri leikmenn að velja úr þá er það þannig“.
Keflvíkingar eru áfram í toppbaráttunni eftir þennan sigur með 14 stig, eins og KR í 4.-5. sæti, FH er áfram á toppnum með 21 stig. Næsti leikur Keflvíkinga er við Þrótt næsta fimmtudag.
Simun kemur á fleygiferð inn í markteig Fjölnis og gefur á Hauk (sjá efstu mynd) sem skorar.
Boltinn kominn yfir marklínuna og Keflavík komið í 3:0.
Keflvíkingar fagna marki Hauks Inga. VF-myndir/Páll Orri Pálsson.