Öruggt hjá Keflvíkingum í grannaslagnum
Keflvíkingar áttu ekki í teljandi erfiðleikum með að leggja granna sína frá Njarðvík þegar liðin mættust í Domino´s deild kvenna í kvöld. Strax frá upphafi var ljóst að róðurinn yrði Njarðvíkingum erfiður og að loknum fyrsta leikhluta var munurinn orðinn 12 stig, toppliði Keflavíkur í vil. Njarðvíkingar bitu laust frá sér í öðrum leikhluta en náðu þó aldrei að komast aftur inn í leikinn. Að lokum unnu Keflvíkingar öruggan 70-48 sigur þar sem leikmenn skiptu stigaskorinu bróðurlega á milli sín. Fimm leikmenn skorðu yfir tíu stig og var Bryndís Guðmundsdóttir þar atkvæðamest með enn eina tvennuna, 14 stig og 11 fráköst.
Erfið staða blasir við Njarðvíkingum um þessar mundir. Liðið er á botni deildarinnar með tvo sigra eftir 12 leiki. Keflvíkingar eru sem fyrr á toppi deildarinnar með 20 stig.