Öruggt hjá Keflavík og Grindavík
Heil umferð var leikin í gær í Subway-deild kvenna í körfuknattleik. Keflavík og Grindavík unnu örugga sigra á Fjölni og ÍR en Valskonur lögðu Njarðvík á sama tíma.
Keflavík er eitt efst enda aðeins tapað einum af fjórtán leikjum tímabilsins. Njarðvík er í fjórða sæti með átta sigra og sex töp en Grindavík er sæti fyrir neðan Njarðvík, í því fimmta, með fimm sigra og níu töp.
ÍR - Grindavík 46:80
(3:23, 18:17, 11:26, 14:14)
Yfirburðir Grindvíkinga voru miklir og þær gerðu út um leikinn strax í byrjun með því að skora sextán fyrstu stigin. Grindavík hafði tuttugu stiga forystu eftir fyrsta leikhluta (3:23) en misstu aðeins dampinn í öðrum hluta sem ÍR vann með einu stigi (18:17). Þrátt fyrir að slaka örlítið á þá juku Grindvíkingar forystuna í 34 stig í þriðja leikhluta (32:66) og sá munur hélst til leiksloka.
þær Hulda Björk Ólafsdóttir og Elma Dautovic voru stigahæstar hjá Grindavík með 22 stig hvor, Hulda með 24 framlagspunkta en Elma 23. Sem fyrr var Danielle Rodriques atkvæðamikil með þrettán stig, sex fráköst, ellefu stoðsendingar og 26 framlagspunkta.
Keflavík - Fjölnir 107:78
(26:18, 26:20, 21:24, 34:16)
Keflavík byggði upp góða forystu jafnt og þétt í Blue-höllinni í gær og höfðu fjórtán stiga forskot í hálfleik (52:38). Fjölnir kom aðeins til baka í þeim þriðja en Keflavík keyrði yfir gestina í síðasta leikhluta og yfirburðasigur í höfn.
Valgerður Birna Benónýsdóttir var stigahæst með 29 stig og Anna Ingunn Svansdóttir kom næst með 22 stig. Daniela Wallen var öflug, með nítján stig, níu fráköst, sjö stoðsendingar og 37 framlagspunkta.
Valur - Njarðvík 83:61
(25:15, 23:15, 15:12, 20:19)
Njarðvík náði ekki að sýna sínar bestu hliðar í gær en Valur hélt sókn Njarðvíkinga í skefjum með góðum varnarleik. Valur hafði átján stiga forystu í hálfleik (48:30) og Njarðvíkingar náðu aldrei að ógna henni.
Aliyah Collier er alger yfirburðamanneskjaj í liði Njarðvíkur, hún var með 25 stig í gær, tólf fráköst, átta stoðsendingar og 35 framlagspunkta. Næst Aliyah var Ísabella Ósk Sigurðardóttir með níu stig, sex fráköst og fimmtán framlagspunkta.