Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Öruggir heimasigrar á Suðurnesjum
Fimmtudagur 6. mars 2008 kl. 22:01

Öruggir heimasigrar á Suðurnesjum

Njarðvík og Keflavík höfðu bæði örugga heimasigra í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld. Njarðvík skellti Skallagrím 113-83 í Ljónagryfjunni og í Toyotahöllinni tóku Keflvíkingar á móti Tindastól og höfðu þar 106-85 sigur á gestum sínum. Keflvíkingar hafa nú 32 stig á toppi deildarinnar eins og KR sem lögðu Hamar örugglega og eru piltarnir úr Hveragerði því fallnir um deild og leika í 1. deild á næstu leiktíð. Njarðvík hefur 24 stig í 4. sæti eftir sigur kvöldins og berjast nú við Snæfellinga um 4. sætið en Snæfell tekur á móti Grindavík í Stykkishólmi annað kvöld.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það blés ekki byrlega í upphafi leiks hjá Njarðvíkingum þar sem Skallagrímur gerði sex fyrstu stig leiksins. Þeir Florian Miftari og Darrell Flake voru Njarðvíkingum erfiðir en Florian gerði 11 stig í fyrsta leikhluta og 9 þeirra komu úr þriggja stiga skotum. Staðan var 27-31 Skallagrím í vil eftir fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta tókst Njarðvíkingum smám saman að vinna sig upp að hlið gestanna og komast yfir.

 

Þeir Hörður Axel og Guðmundur Jónsson voru grimmir fyrir Njarðvík í öðrum leikhluta og léku vel ásamt Brenton Birmingham. Heimamenn leiddu 54-48 í leikhléi en tóku svo öll völd í síðari hálfleik.

 

Í þriðja leikhluta magnaðist baráttan á vellinum og svo fór að Florian Miftari var vísað út úr húsi fyrir orðaskak við dómara leiksins. Florian hóf leikinn vel en endaði hann á lágu nótunum þar sem hann skoraði ekki stig eftir fyrsta leikhluta. Njarðvíkurvörnin small saman og með þriggja stiga körfu undir lok leikhlutans frá Guðmundi Jónssyni leiddu heimamenn 90-70 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

 

Síðasti leikhlutinn var rökrétt framhald af góðum lokaspretti Njarðvíkinga í þriðja leikhluta og keyrðu heimamenn gesti sína í kaf. Af 12 leikmönnum á leikskýrslu í Njarðvíkurliðinu í kvöld tókst 11 leikmönnum að skora. Þeirra atkvæðamestur var Brenton Birmingham með 29 stig og næstur honum kom Hörður Axel Vilhjálmsson með 19 stig. Darrell Flake gerði 23 stig í liði gestanna en allur vindur var úr Skallagrímsmönnum í síðari hálfleik eftir góðan fyrri hálfleik og var nánast um tvö ólík Skallagrímslið að ræða í Ljónagryfjunni í kvöld.

 

Kristinn Friðriksson fyrrum leikmaður Keflavíkur og núverandi þjálfari Tindastóls gerði ekki frægðarför á sinn gamla heimavöll í kvöld. Tindastólsmenn lágu 106-85 í Toyotahöllinni þrátt fyrir fína byrjun. Keflavík leiddi 25-23 eftir fyrsta leikhluta en settu svo í annan gír og leiddu 54-32 í leikhléi.

 

Keflavík gerði sex síðustu stigin í 1. leikhluta og 13 fyrstu stigin í 2. leikhluta og fóru svo með öruggan sigur af hólmi enda staðráðnir í því að bæta fyrir tapleikinn óvænta gegn Hamri í síðustu umferð.

 

Bobby Walker gerði 27 stig og tók 5 fráköst í liði Keflavíkur í kvöld en næstur honum var Tommy Johnson með 25 stig og 9 fráköst.

 

VF-Myndir/ [email protected] og [email protected] – Frá leikjum kvöldsins í Toyotahöllinni og Ljónagryfjunni.