Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Örugg afgreiðsla
Mánudagur 23. mars 2009 kl. 23:26

Örugg afgreiðsla


Grindavík vann öruggan og glæstan sigur á Snæfelli í fyrsta leik undanúrslitanna í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik. Leikurinn fór fram í Grindavík í kvöld en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki mun leika til úrslita við annað hvort Keflavík eða KR.


Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en fljótlega virtust Grindvíkingar hafa kveikt á nítróinu og flugu framúr Snæfelli. Leikurinn var stórskemmtilegur á að horfa og á tímabili var eins og ekki mætti skora annað en þriggja stiga körfur. Í hálfleik var staðan orðin 67 stig heimamanna gegn 48 gestanna, stigaskor sem fólk er vanara að sjá nálægt leikslokum en ekki í hálfleik.

Grindvíkingar gátu leyft sér að hægja örlítið á í síðari hálfleik, því sigur þeirra virtist aldrei í hættu. Lokatölurnar 110 stig heimamanna gegn 82 hjá Snæfelli.

 Nick Bradford var með 24 stig fyrir Grindavík, Brenton Birmingham 21 stig, Arnar Freyr Jónsson og Þorleifur Ólafsson með 15 stig hvor og Helgi Jónas Guðfinnsson 14 stig. Hjá Snæfelli var Wagner að skora eitthvað af viti og setti 30 stig.


Snæfellingar misstu boltann 21 sinni í leikum sem gaf Grindvíkingum mörg hraðaupphlaup og glæsilegar troðslur voru þar á meðal eins og sjá má í myndasöfnum sem sett hafa verið hér inn á vf.is. Annars vegar má sjá tilþrif hjá Nick Bradford og þá virðist Þorleifur Ólafsson hafa tekið ástfóstri við myndavél Víkurfrétta, enda tekur hann ávallt glæsilega troðslu með tilþrifum þegar Víkurfréttamyndavélin er undir körfunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



- Bendum á ítarlega umfjöllun um leikinn hjá vinum okkar á www.karfan.is


Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson - sjá nánar í ljósmyndasafni hér á vf.is