Orri að yfirgefa Grindavík
Útlit er fyrir að Orri Freyr Hjaltalín, sem hefur leikið með knattspyrnuliði Grindavíkur undanfarin átta ár, snúi aftur í heimahagana á Akureyri og gangi til liðs við Þórsara. Hann myndi þá spila með þeim í 1. deild en Þórsliðið féll úr úrvalsdeildinni í haust eftir eins árs dvöl þar.
Samningaviðræður eru í gangi milli Þórs og Grindavíkur um möguleg félagaskipti Orra, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hann á þrjú ár eftir af samningi sínum við Grindvíkinga og því alls ekki öruggt að það gangi eftir.
Orri, sem er 31 árs, hefur verið fyrirliði Grindavíkurliðsins undanfarin ár, þó ekki seinni hluta síðasta tímabils þegar Óskar Pétursson markvörður tók við embættinu af honum.
mbl.is greinir frá.