Örn áfram í 2. sæti: Heiða komin í það fjórða
Suðurnesja kylfingarnir Örn Ævar Hjartarson og Heiða Guðnadóttir, bæði frá GS, áttu fínan dag á Íslandsmótinu í höggleik í dag en Erni tókst að halda sér í 2. sætinu en Heiða Guðnadóttir komst upp í það fjórða.
Heiða lék sinn besta hring í mótinu til þessa á 75 höggum og er því á samtals 19 höggum yfir pari, 10 höggum á eftir Nínu Björk Geirsdóttur sem er á níu höggum yfir pari í efsta sætinu.
Örn Ævar lék sinn slakasta hring til þessa en var á 74 höggum í dag og er því samtals á tveimur höggum yfir pari og jafn Ólafi Má Sigurðssyni og Heiðari Davíð Bragasyni í 2. sæti.
Lokahringurinn fer fram á Hvaleyrinni á morgun þar sem það ræðst hverjir verða Íslandsmeistarar 2007.
Nánar um mótið í máli og myndum á www.kylfingur.is
VF-mynd/ www.kylfingur.is - Örn Ævar lék á 74 höggum í dag en það er hans lakasta skor til þessa í mótinu.