Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Örn Ævar vann í tólfta sinn í Leirunni
Guðmundur Rúnar og Sigurður óska Erni til hamingju á 18. flötinni í dag.
Laugardagur 7. júlí 2012 kl. 19:49

Örn Ævar vann í tólfta sinn í Leirunni

 - Karen Sævars kvennameistari.


Örn Ævar Hjartarson varð klúbbmeistari GS í tólfta sinn og endaði 72 holurnar á tveimur undir pari. Guðmundur Rúnar Hallgrímsson og Sigurður Jónsson sóttu þó hart að Erni á lokahringnum en hann náði að sigra þó lokahringurinn hafi verið hans lakasti í mótinu. Guðmundur endaði tveimur höggum á eftir Erni og Sigurður þremur.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta var bara spennandi og skemmtilegt. Þeir Guðmundur og Sigurður þjörmuðu að mér. Sigurður vann fjögur högg af mér á fyrstu fimm holunum og síðan vann Guðmundur fjögur högg af mér á fjórum holum í seinni hring, frá 13. til 16. holu. Hann fékk síðan fugl á 17. holu en ég náði að svara því á sömu flöt þegar ég setti niður 3 metra pútt. Það munaði því miklu að hafa tvö högg í forskot fyrir lokaholuna. Það dugði,“ sagði Örn Ævar, sæll og glaður eftir tólfta sigurinn á meistaramóti GS.



Karen Sævarsdóttir hefur ekki keppt lengi á meistaramóti GS en á þó nokkra titla. Hún var þremur höggum á eftir nöfnu sinni Guðnadóttur fyrir lokahringinn og sá munur var orðinn fimm högg fyrir Guðnadóttur eftir fjórar holur á lokahringnum. Sú „gamla“ ef svo má segja, hélt áfram þó byrjunin hafi verið skrykkjótt og með fugli á 9. braut var hún komin í forystusætið með einu höggi. Það var mjög jafnt eftir það en Sævarsdóttir kláraði dæmið og lék lokahringinn á 76 höggum og vann með tveimur á 317 höggum. Karen Guðnadóttir varð önnur og lék á 319 höggum.

Guðmundur Rúnar sótti hart að Erni á lokaholunum. Hér er hann í glompu á 18. braut.
 

Sigurður Jónsson lenti alveg við klúbbhúsið í öðru höggi á 18. holu, fékk lausn og sló fallegt högg yfir klúbbhúsið og í fuglafæri á flötinni.
 

Karen Sævarsdóttir fyrir miðju með Birgi Orra kylfusveini sínum og sigurvegara í flokki 12 ára og yngri og Elinoru Einarsdóttur sigurvegara í stúlknaflokki.