Örn Ævar reynir við Evrópumótaröðina í september
Kylfingurinn Örn Ævar Hjartarson, Golfklúbbi Suðurnesja, hefur skilað inn atvinnumannaumsókn til Golfsambands Íslands. Örn Ævar hyggst reyna fyrir sér á úrtökumóti fyrir evrópsku mótaröðina í september næstkomandi. Úrtökumótið fer fram í Oxford skammt utan við London þar sem leiknar verða fjórar umferðir.
Á hverju ári sækja þúsundir kylfinga um að komast inn á Evrópumótaröðina og þurfa því að leika í úrtökumóti þar sem aðeins um 30 kylfingar komast inn á mótaröðina sjálfa að loknu úrtökumóti.
Örn Ævar sagði í samtali við Víkurfréttir í fyrra þegar hann fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í holukeppni að hann hyggðist reyna fyrir sér í atvinnumennskunni og nú er stóra stundin runnin upp.
Af hverju ákvaðst þú að skrá þig í úrtökumótið núna?
Þetta er búið að vera draumur hjá mér síðan ég var smá pjakkur. Nú var bara komið að því að hrökkva eða stökkva. Maður er búinn að koma sér vel fyrir og ákvað því að kýla á þetta.
Ert þú tilbúinn í slaginn í september og hvaða möguleika telur þú að þú eigir á því að komast inn á mótaröðina?
Ég hef verið að æfa vel og mikið í ár og það hefur sýnt sig í jafnri spilamennsku í allt sumar. Að vera með jafna og góða spilamennsku er lykillinn í því að komast áfram í svona úrtökumóti eins og verður á Englandi í september. Einnig hef ég verið að ná góðum hringjum inn á milli, t.d. í Meistaramóti GS þar sem ég spilaði á 11 höggum undir pari. Þetta sýnir að ég á alveg heima á meðal þeirra bestu í Evrópu þegar vel gengur.
Örn heldur í dag til Vestmannaeyja þar sem hann mun taka þátt í Sveitakeppninni með sveit GS sem hafnaði í 2. sæti í keppninni í fyrra og freistar þess nú að næla í gullið.