Örn Ævar keppir í tveimur mótum á Spáni
Kylfingurinn Örn Ævar Hjartarson, úr GS, kom heim úr æfingaferð til Bandaríkjanna sl. miðvikudag. Hann stoppar ekki lengi heima við því hann heldur til Spánar í næstu viku ásamt Sigurþóri Jónssyni og munu þeir taka þátt í tveimur mótum í næsta mánuði. Örn Ævar segir að æfingarnar með íslenska landsliðinu á Eagle Creek í Flórída hafi verið mjög gagnlegar. Frá þessu er greint á golffréttamiðlinum www.kylfingur.is
,,Ég var mjög sáttur við þessa ferð en ég hefði mátt spila aðeins betur. Síðasti hringurinn var skástur hjá mér en ég spilaði hann á einum undir pari. Núna er markmiðið að æfa stutta spilið á meðan ég verð hér heima en næsta ferð hjá mér er á miðvikudaginn þegar ég fer til Spánar. Þar mun ég spila í tveimur mótum (á La Sella vellinum og Valle del Este) og æfa svo í tvær vikur eftir það," segir Örn Ævar á bloggsíðu sinni.
,,Ég er búinn að vera við æfingar á Eagle Creek vellinum síðustu vikuna í Flórída. Ég fór þangað ásamt tólf spilurum og Staffani landsliðsþjálfara og Ragnari Ólafs liðstjóra. Þar var æft stíft alla daga og byrjuðum við flesta dagana á því að spila 18 holur. Eftir hádegi var svo æft stíft. Markmið ferðarinnar var að geta byrjað boltann á réttri stefnu og get ég nú sagt að ég get byrjað boltann á réttri stefnu í langflestum tilfella. Laugardagurinn var hins vegar undantekning frá hinum dögunum en þá fórum við á Faldo æfingaraðstöðuna sem er á International drive og hittum þar Anders Forsbrand. Hann fór með okkur yfir styttri höggin en hann var og er ennþá snillingur með wedge-ana í höndunum. Þar vorum við að vinna mikið í því að shape-a höggin. Slá há, lág, fade eða draw með wedge-unum. Þetta var alveg frábær dagur með Anders.”