Örn Ævar í erfiðri stöðu
Örn Ævar Hjartarson úr GS og Sigurþór Jónsson úr GR hófu leik á úrtökumótinu fyrir sænsku mótaröðina á Elisefarm vellinum í Svíþjóð í dag. Sigurþór lék á 75 höggum, eða 3 höggum yfir pari og er í 12.-16. sæti. Örn Ævar náði sér hins vegar ekki á strik og lék á 83 höggum, eða 11 höggum yfir pari og er í 58.-67. sæti eftir fyrsta hringinn af þremur.
Svíinn Fredrik Andersson lék best í dag á 71 höggi, eða 1 höggi undir pari sem er nýtt vallarmet á Elisefarm vellinum. Carl-Johan Stjarnfalt frá Svíþjóð og Tékinn Tomas Kamas deila öðru sæti á 72 höggum.
Keppendum verður fækkað niður í 40 eftir hringinn á morgun og þarf Örn Ævar að spila mun betur á morgun ef hann ætlar að komast inn á lokahringinn. Sigurþór lék hins vegar vel í dag og með sama leik á morgun ætti hann að vera öruggur áfram.
www.kylfingur.is
VF-mynd úr safni