Örn Ævar á 75 höggum í dag
Kylfingurinn Örn Ævar Hjartarson úr Golfklúbbi Suðurnesja lék best allra íslensku kylfinganna í höggleiknum á EM landsliða í Skotlandi. Þetta var síðari dagurinn og Lék Örn Ævar á 75 höggum, eða 4 yfir pari.
Ísland endaði í 20. sæti og kemst því augljóslega ekki áfram í 8-liða úrslit. Ljóst er að Ísland verður í þriðja styrkleikaflokki í holukeppninni sem hefst á morgun og mun leika um 17.-20. sætið.
Eftir fyrsta keppnisdag var íslenska liðið í 13.-14. sæti á samtals 21 höggi yfir pari, en lék verr í dag og féll við það ofan í neðsta sæti. Ísland hefur best náð 4. sæti, en það var á EM í Svíþjóð 2001.