Ondo og Ása best í Grindavík
Lokahóf knattspyrnudeildar fór fram á laugardagskvöldið í íþróttahúsinu sem var búið að breyta í fínasta skemmtistað. Mikil vinna var lögð í að gera salinn sem glæsilegastan. Helgi Björnsson tryllti lýðinn og Ingvar Jónsson var frábær veislustjóri. Gilles Mbang Ondo og Ása Dögg Aðalsteinsdóttir voru svo valin bestu leikmenn karla og kvennaliða Grindavíkur af leikmönnum og stjórn og voru vel að því komin.
Jósef Kr. Jósefsson var valinn efnilegastur hjá strákunum og Dagmar Þráinsdóttir hjá stúlkunum. Elínborg Ingvarsdóttir var valin mikilvægasti leikmaðurinn hjá stúlkunum. Elísabet S. Emilsdóttir var markakóngur hjá GRV en Ondo hjá karlaliðinu. Þá var Guðmundur Egill Bergsteinsson valinn besti leikamaður 2. flokks. Stuðningsmannaklúbburinn Stinningskaldi valdi Ondo leikmann ársins.
Þá voru Óli Stefán Flóventsson og Eysteinn Hauksson kvaddir með veglegum gjöfum. Þessir reynsluboltar hafa ákveðið hætta nú í haust og snúa sér að þjálfun. Stóðu gestir á fætur og hylltu kappana með dynjandi lófataki.
Þá var Bjarni Ólason kokkur heiðraður fyrir einstakt framlag til fótboltans í gegnum tíðina.
Eftirtaldir fengu viðurkenningu frá knattspyrnudeildinni fyrir 10 ára farsælt starf í þágu fótboltans: Guðmundur Pálsson, Óli Stefán Flóventsson, Ingvar Guðjónsson, Rúnar Sigurjónsson, Sigurður Enoksson og Milan Stefán Jankovic.
Þá voru sjö manns gerðir að heiðursfélögum knattspyrnudeildar: Þórkatla Albertsdóttir, Aðalgeir Jóhannsson, Sigurður Gunnarsson, Ragnar Ragnarsson, Margrét Engilbertsdóttir,
Jón H. Gíslason og Bjarni Andrésson.
Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar, www.grindavik.is