Ómar: Verðum betri í ár
- Íslenski boltinn rúllar af stað á sunnudag - Keflavík mætir Íslandsmeisturum FH í fyrsta leik
Ómar Jóhannsson markvörður Keflvíkinga segist hvergi banginn við það að mæta sterkum liðum FH og KR í fyrstu tveimur umferðum Íslandsmótsins í knattspyrnu. Keflvíkingar eru jafnan vanir að koma vel undan vetri en Ómar segir spilamennsku liðsins óðum að slípast saman.
„Ég hef ekki verið allt of sáttur við okkar spilamennsku á undirbúningstímabilinu. Það hefur verið mikið rót á liðinu og við höfum sjaldan getað teflt fram sama liði í leikjum,“ sagði markvörðurinn leikreyndi í samtali við Víkurfréttir. Ómar glímdi við meiðsli í lok síðasta tímabils og svo varð hann fyrir öðrum meiðslum sem settu strik í reikninginn. Ómar meiddist þá á öxl og segir hann að á tímabili hafi útlitið verið fremur svart enda hefur hann nánast ekkert verið með liðinu í vor. Nú hafa Keflvíkingar samið við leikreyndan enskan markvörð og Ómar segist skilja þá ákvörðun. „Ég hef bara verið það mikið meiddur að þetta er alveg skiljanlegt,“ segir Ómar sem tekur þó fyrir það að hann sé að verða of gamall, enda einungis 32 ára. David James markvörður ÍBV er t.d. 10 árum eldri.
Nú keppast fjölmiðlar um að spá fyrir um gengi liða í sumar og þar eru Keflvíkingar jafnan að lenda fremur neðarlega á töflunni. Ómar segir að Keflvíkingar verði að mæta sæmilega hógværir inn í tímabilið en markmiðið sé þó að gera betur en í fyrra þar sem liðið hafnaði í 9. sæti. „Það voru viss vonbrigði að hafna þar eftir að hafa verið að gæla við Evrópusæti á tímabili. En ég hef trú á því að við verðum betri í ár.“
Keflvíkingar hafa alið af sér marga góða knattspyrnumenn í gegnum tíðina og Ómar segir að ungu leikmenn liðsins séu nú reynslunni ríkari og munu mæta sterkari til leiks en í fyrra. Svo hafa ungir óreyndir leikmenn verið að banka á dyrnar og fengið að spila töluvert á undirbúningstímabilinu. Ómar getur ekki neitað því að erfitt verði að fylla skarð Guðmundar Steinarssonar sem hefur verið í aðalhlutverki í sóknarleik liðsins undanfarin ár. „Þarna á gamla klisjan við. Það kemur maður í manns stað, en að sjálfsögðu munum við sakna hans, klárlega.“ Keflvíkingar virðast vera klárir í slaginn og þá hlakkar til sumarsins að sögn Ómars.
Fyrsti leikur liðsins er gegn Íslandsmeisturum FH á útivelli á sunnudag kl. 19:15 og svo koma KR-ingar í heimsókn á Nettóvöllinn þann 12. maí.