Ómar í Njarðvík
Mun aðstoða Guðmund Steinarsson við þjálfun
Ómar Jóhannsson var í dag ráðin aðstoðarþjálfari meistaraflokks Njarðvíkinga í 2. deild karla í knattspyrnu. Ómar sem gert hefur garðinn frægan sem markvörður Keflvíkinga mun einnig sjá um markmannsþjálfun liðsins.
Ómar dró sig í hlé vegna meiðsla á dögunum en hann hefur verið aðal markvörður Keflvíkinga síðan árið 2002 og leikið 198 leiki fyrir félagið. Njarðvíkingar voru fljótir að stökkva til þegar Ómar lýsti því yfir að hann væri áhugasamur um þjálfun. Guðmundur Steinarsson þjálfari Njarðvíkinga var ánægður með að fá fyrrum liðsfélaga sinn sér til aðstoðar og hrósaði stjórn Njarðvíkinga fyrir skjót vinnubrögð.
„Það má segja að þetta hafi komið skyndilega upp. Þegar við í Njarðvík fréttum af því að hann þyrfti líklegast á góðri hvíld að halda, voru stjórnarmenn í Njarðvík fljótir að bregðast við og gripu Ómar glóðvolgann. Þeir eiga hrós skilið fyrir það,“ sagði þjálfarinn Guðmundur í samtali við VF.