Ómar frá vegna meiðsla í mánuð
Ómar Jóhannsson markmaður Keflavíkur meiddist í leiknum gegn KR í gær. Í læknisskoðun í dag kom í ljós að hann er tognaður í framanverðu læri og verður frá í 4-5 vikur. „Þetta er gríðarlega svekkjandi, vægt til orða tekið. Maður var að finna sig nokkuð vel, missti af öllu síðasta sumri og maður var að koma sér í gang aftur. En samkvæmt læknisskoðun í dag að þá hefði þetta getað orðið verra, en maður verður bara að koma sterkur til baka,“ sagði Ómar.
Árni Freyr Ásgeirsson, varamarkmaður Keflvíkinga, kom inná í stað Ómars og hélt hreinu það sem eftir var leiksins. “Árni stóð sig vel, hann sýndi kjark og þor og var tilbúinn þegar hann fékk sénsinn. Hann hélt hreinu og það gefur honum smá púst og okkur líka fyrir næsta leik.“ En aðspurður segist Ómar ekki hafa áhyggjur af markmannsmálum Keflavíkur á meðan hann er meiddur. „Ég býst ekki við öðru en að Árni sé tilbúinn, annars væri hann ekki í þessu held ég. Hann er efnilegur markmaður og ég sé ekkert að því að hann taki einhverja leiki. Hann er með góða vörn fyrir framan sig, akkurat núna þá bestu á landinu.“ Aðspurður sagðist Árni vera ánægður með að fá tækifæri með liðinu. „Ég er búinn að sitja tæplega fjörutíu leiki á bekknum þannig að ég er búinn að bíða lengi eftir þessu. Ég er búinn að æfa vel í allan vetur og í sumar þannig að þetta fer allt vel.“
Ómar er að vonum sáttur með gang liðsins það sem af er sumri. „Tíu stig úr fyrstu fjórum leikjunum, ég held að það sé bara vel ásættanlegt. Eitt mark á okkur, það er ásættanlegt líka, fjögur skoruð, við myndum vilja skora meira en við eigum það bara inni, tíu stig er það sem telur mest. Við erum vel þéttir og gefum lítið færi á okkur. Á meðan við fáum ekki á okkur mörk að þá erum við alltaf líklegir að vinna leikina.“